Fara í efni
Fréttir

Oddur forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs HA

Oddur forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs HA

Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor í Auðlindadeild Háskólans á Akureyri (HA), hefur verið ráðinn í stöðu forseta Viðskipta- og raunvísindasviðs HA frá 1. janúar næstkomandi til næstu fjögurra ára.

Oddur er doktor í matvælaörverufræði frá The Pennsylvania State University og hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá árinu 2004. Hann hefur meðal annars leitt fjölþjóðlegar rannsóknir á sviði umhverfisörverufræði Norðurslóða, að því er segir í tilkynningu frá skólanum.

„Meginmarkmið Odds í starfi sviðsforseta er að efla rannsóknarstarf innan sviðsins, en hann segir Viðskipta- og raunvísindasvið hafa margt til að bera sem geri það að aðlaðandi samstarfsaðila í rannsóknum, jafnt akademískum sem atvinnulífstengdum. Á sviðinu starfar vaskur hópur öflugra fræðimanna með víðtæk tengslanet og verðmæta reynslu, en Oddur segist eygja tækifæri til enn frekari sæmdarauka sviðsins í rannsóknum,“ segir í tilkynningunni.

„Ásamt því sér hann fyrir sér fræðasvið sem býður upp á öflugt og rannsóknartengt nám sem lýtur að hagnýtingu bæði mannauðs og náttúru, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag um ókomna tíð. Viðskipta- og raunvísindasvið er eitt af þremur fræðasviðum háskólans. Sviðið býður upp á fjölbreytt grunn- og framhaldsnám í tveimur deildum, Auðlindadeild og Viðskiptadeild. Við Auðlindadeild er lögð rík áhersla á nám og rannsóknir í tengslum við sjálfbæra og arðbæra nýtingu náttúruauðlinda á tveimur námsbrautum; sjávarútvegsfræði og líftækni. Viðskiptafræðin leggur áherslu á breiða og almenna þekkingu í viðskiptafræðum sem nýtist á öllum stigum íslensks atvinnulífs. Í heldina eru 750 stúdentar skráðir til náms við viðskipta- og raunvísindasvið og þar starfa 33 einstaklingar en því til viðbótar koma um 20 aðilar að kennslu með ýmsum hætti.“