Fara í efni
Fréttir

Nýr baðstaður með heitu vatni úr göngunum

Útsýni út Eyjafjörð frá þeim stað þar sem baðstaðurinn nýi verður, í skógi vöxnu landi Ytri-Varðgjár.

Stefnt er að opnun nýs baðstaðar snemma árs 2022 í skógi vöxnu landi Ytri Varðgjár. Jörðin tilheyrir Eyjafjarðarsveit en er aðeins steinsnar frá Akureyri – í Vaðlaheiðinni, gegnt bænum. Heitt vatn úr Vaðlaheiðargöngum verður flutt í lögn á staðinn og notað í böðin.

„Baðstaðurinn verður staðsettur í skógi vöxnu landi Ytri Varðgjár, þar sem hægt verður að sameina kosti skjólsæls gróðurs og einstaks útsýnis í Eyjafirði. Hönnun baðstaðarins er í fullum gangi, en þar er sérstaklega horft til þess að skapa staðnum skýra sérstöðu,“ segir í fréttatilkynningu frá Skógaböðum, einkahlutafélagi hjónanna Finns Aðalbjörnssonar og Sigríðar Maríu Hammer.

Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir baðlóni, köldu baði og gufuböðum, en á seinni stigum er stefnt að því að þróa frekari ferðaþjónustengda starfsemi á svæðinu.

„Við höfum mikla trú á aðdráttarafli Norðurlands þegar ferðaþjónustan fer af stað aftur. Meðal annars þess vegna höfum við tröllatrú á þessu verkefni. Ef allt gengur eftir gætu verklegar framkvæmdir hafist næsta vor og við byrjað að taka við gestum árið 2022. Við höfum alls staðar þar sem við höfum kynnt verkefnið fengið mjög jákvæðar viðtökur, enda margir á þeirri skoðun að það vanti öflugan segul í ferðaþjónustunni hérna á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Finnur Aðalbjörnsson í tilkynningunni.

Baðstaðir hafa notið mikillar hylli hérlendis lengi. Bláa lónið á Reykjanesi er þekktasta dæmið, enda vinsælt á heimsvísu. Jarðböðin í Mývatnssveit og Sjóböðin á Húsavík hafa einnig verið mjög vinsæl, svo og þau nýjustu, Vök rétt við Egilsstaði austur á Héraði.

Útsýnið úr landi Ytri-Varðgjár inn Eyjafjörð - fram í fjörð, eins og sagt er - og svo vestur um til Akureyrar.