Fara í efni
Fréttir

Njáll Trausti sækist eftir oddvitasætinu

Njáll Trausti á aðalfundi kjördæmisráðsins í morgun.
Njáll Trausti á aðalfundi kjördæmisráðsins í morgun.

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, tilkynnti á aðalfundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í dag að hann sæktist eftir efsta sæti á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar í haust. Fram kom í morgun að Kristján Þór Júlíusson, oddviti flokksins í kjördæminu, gæfi ekki kost á sér lengur.

Ákveðið var á fundinum í morgun að halda prófkjör við val á fólki í fimm efstu sæti listans. Prófkjörið verður 29. maí.

Njáll Trausti var í öðru sæti á lista flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur á Akureyri, hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér í 2. sæti á lista flokksins fyrir alþingiskosningar en aðrir hafa ekki stigið fram.

„Ég hef notið mín vel í þingstörfunum á kjörtímbilinu og náð mörgum baráttumálum í höfn sem snerta kjördæmið beint. Ég nefni sem dæmi „Skosku leiðina” sem léttir mikið undir með fólki á landsbyggðinni sem þarf að sækja mikilvæga þjónustu á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Njáll Trausti á Facebook sinni nú síðdegis.

„Greiðar samgöngur er lífæð landsbyggðarinnar og þess vegna er ég stoltur af þátttöku minni í því brýna verkefni að nýframkvæmdir við stækkun flughlaðs og stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli eru hafnar. Það er einnig forgangsmál að flýta framkvæmdum við flugvöllinn á Egilsstöðum enda standa þeim flugvelli ótal tækifæri fyrir dyrum sem varaflugvöllur í millialandaflugi og gagnvart vöruútflutningi,“ segir hann.

„Þjóðaröryggi og innviðir eru höfuðáherslur mínar í stjórnmálum, þar undir er orkuöryggi. Það má ekki gerast að válynd veður geti slegið út rafmagni í heilu byggðarlögunum og stefnt öryggi íbúa í hættu. Þarna höfum við lagt mikið á okkur og verðum að gera áfram. Fjarskipti, eins og samgöngur, skipta landsbyggðina líka miklu máli.

Öflugt sjúkraflug skiptir alla landsmenn miklu máli og þar gegnir Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni lykilhlutverki.

Ljósleiðaravæðing alls landsins hefur gengið vel. Gott netsamband er forsenda þess að fólk geti fullan þátt í samfélagslegum verkefnum og gripið tækifæri á vinnumarkaði, besta dæmið eru störf án staðsetningar. Við eigum að halda áfram þeirri þróun, þegar staðsetning starfa skiptir engu máli galopnast möguleikarnir um land allt. Þeirri tíð á að ljúka að fólk þurfi nauðbeygt að flytja úr heimabyggð starfs síns vegna.

Verðmætasköpun verður alltaf grunnurinn að velmegun okkar og uppbygging atvinnulífs verður alltaf að vera í forgangi. Norðausturkjördæmi gegnir þar mikilvægu hlutverki og brýnt að stutt sé við mikilvæga atvinnuvegi til áframhaldandi sóknar og tvíeflingar á ýmsum sviðum,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson.