Fara í efni
Menning

Náttúra Norðurlands með ævintýrablæ

Ýmir Grönvold opnar nýja málverkasýningu á Listasafninu í dag. Myndir: RH

Myndlistamaðurinn Ýmir Grönvold opnar sýningu sína, Á milli fjalls og fjöru, á Listasafninu á Akureyri í dag, laugardaginn 30. ágúst kl. 15.00. Ýmir er fæddur 1994 og býr og starfar í Reykjavík en er úr Hafnarfirði. Náttúran og tenging manna við náttúruna er Ými hugleikin, en hann málaði verkin sérstaklega fyrir þessa sýningu, þar sem hann leitar fanga í norðlensku landslagi.

Viðfangsefnið er í rauninni einfalt, það er náttúran hérna og mín upplifun á henni

„Ég hafði langan tíma til þess að undirbúa sýninguna, og gat gefið mér rými til þess að upplifa Norðurlandið og mála,“ segir Ýmir við blaðamann Akureyri.net. „Þetta er eiginlega í fyrsta sinn sem ég vinn verk svona staðbundið og það hefur verið mjög gaman.“ 

Heillaður af íslenskum landslagsmálverkum

„Ég er alltaf að rannsaka málverkið, hvað ég get get innan þessa miðils,“ segir Ýmir. „En viðfangsefnið er í rauninni einfalt, það er náttúran hérna og mín upplifun á henni. Það er kannski svolítil klisja að segja það, en ég er mjög heillaður af íslensku málurunum sem máluðu landið okkar. Minn helsti innblástur er samt náttúran sjálf.“ 

 

Hraundrangar eins og þeir birtast Ými á einhverri stund í tímanum. Hann segist vera hrifinn af því að takast á við vinsæl viðfangsefni og finna á þeim nýjar hliðar. Mynd: RH

Heiður að fá að sýna á Listasafninu

Ýmir hefur tengingu við Norðurlandið, en hann hefur sýnt tvisvar í Kaktus og hefur eytt töluverðum tíma á Hjalteyri. „Ég hef alltaf upplifað mig mjög velkominn hérna fyrir norðan og líður vel hérna. Það er mikill heiður að fá að sýna hérna í Listasafninu á Akureyri, þetta er svo flott stofnun. Ég upplifi þetta sem mikla viðurkenningu og allt hefur gengið vel í undirbúningi. Ég hlakka mikið til að opna og ég vona að gestirnir njóti,“ segir Ýmir að lokum.

 

Ýmir Grönvold (f. 1994) býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í myndlist 2018 og var í skiptinámi við KABK og Konunglegu listaakademíuna í Den Haag. Texti: Listak.is