Fara í efni
Fréttir

Reyna að stemma stigu við svifryksmengun

Strandgatan vökvuð síðdegis í gær. Nokkrir bílar voru þá á ferðinni um helstu umferðargötur. Ljósmyn…
Strandgatan vökvuð síðdegis í gær. Nokkrir bílar voru þá á ferðinni um helstu umferðargötur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gríðarleg svifryksmengun var á Akureyri í gær og fyrradag, langt yfir heilsuverndarmörkum. Unnið hefur verið í því að draga úr menguninni með því að bleyta helstu umferðargötur í því skyni að rykbinda, og einnig hafa götur verið sópaðar.

Svifryk má að jafnaði fara yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra í sjö daga á ári. Skömmu eftir miðnætti á gamlárskvöld var það mest 113 en fór fljótlega niður fyrir hundrað.

Allt var með felldu yfir helgina, en eftir að hlýnaði og jörð varð nánast auð, seig heldur betur á ógæfuhliðina. Á mánudagsmorgun hækkaði talan hratt, var komin í 141 míkgrógramm á rúmmetra klukkan níu og fór hæst í 180 klukkutíma síðar. Síðan lagaðist ástandið hægt, en tölur á töflu Umhverfisstofnunar yfir loftgæði voru eldrauðar fram eftir degi.

Í gær var ástandið svipið – mest mældust 175 míkrógrömm svifryks á rúmmetra klukkan 10 að morgni og tölur voru eldrauðar, langt yfir 100, fram yfir miðjan dag.

Mengun, að öllum líkindum vegna bílaumferðar, virðist því mun meiri en frá flugeldaskothríðinni, enda lang flestir líklega á nagladekkjum sem geta spænt upp malbikið.

Á heimasíðu Akureyrarbæjar voru þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, varaðir við því að stunda mikla útivist í nágrenni við stórar umferðargötur.

Sýnataka hafin vegna rannsóknar

Nýlega hófst sýnataka vegna rannsóknar á efnasamsetningu og uppruna svifryks á Akureyri. Um er að ræða samstarf verkfræðistofunnar Eflu og Akureyrarbæjar. Niðurstöður verða bornar saman við samsetningu svifryks í Reykjavík og út frá því verður meðal annars reynt að meta áhrif negldra hjólbarða, mismunandi hálkuvarnarefna og annarra aðgerða. Að auki verða skoðuð tengsl við veðurfar og mismunandi malbikstegundir.

Markmiðið er að safna betri og áreiðanlegri upplýsingum en nú liggja fyrir um svifryk og mengun sem af því stafar og greina hvers vegna styrkur svifryks fer yfir heilsuverndarmörk. Sýni verða tekin á Akureyri næstu mánuði. Stefnt er að því að sækja um áframhaldandi styrk vegna verkefnisins og ná þannig að greina gögn sem ná yfir heilt ár.