Fara í efni
Fréttir

Marga sérgreinalækna vantar til starfa á SAk

Mynd: Þorgeir Baldursson

Skortur er á sérgreinalæknum á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk), meðal annars vegna áhrifa frá nýjum kjarasamningum lækna sem kalla á aukna mönnun. Eins og akureyri.net hefur greint frá hóf SAk á dögunum kynningarherferð sem miðar að því að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi atvinnutækifærum fyrir lækna á SAk. 

Kynningarherferðin ber yfirskriftina Finndu jafnvægið fyrir norðan og þar er sjónum sérstaklega beint að jafnvægi vinnu og einkalífs, sterkri liðsheild og þeim lífsgæðum sem Akureyri býður upp á, að því er segir í frétt á vef SAk. Sjúkrahúsið er sérstaklega að leita að sérgreinalæknum og á Starfatorginu, þar sem laus störf hjá hinu opinbera eru auglýst, eru núna sjö auglýsingar frá SAk þar sem auglýst er eftir læknum í hinum ýmsu sérgreinum. Auk kynningarherferðarinnar hyggst SAk bera víurnar í íslenska sérgreinalækna annars staðar á Norðurlöndunum.

Nýir kjarasamningar kalla á aukna mönnun

Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, segir í skriflegu svari til akureyri.net að þörfin fyrir aukna mönnun í heilbrigðiskerfinu sé ekki ný af nálinni og hafi sveiflast gegnum tíðina. Hún vill ekki taka undir að staðan sé verri núna en oft áður „Vegna gildistöku nýrra kjarasamninga lækna jókst mönnunarþörfin hjá öllum sérgreinum. Stytting vinnuvikunnar, breytingar á vaktafyrirkomulagi lækna og ávinnsla fría hefur þau áhrif. Það má því segja að nú þurfi fleiri lækna til þess að halda úti þjónustu eftir gildistöku samninganna,“ segir Ragnheiður og bætir við að þessar breytingar eigi við um allt heilbrigðiskerfið en ekki bara hjá SAk.

Ragnheiður bendir á að fyrir tveimur árum hafi SAk hafið herferðina Komdu í lið með okkur, þar sem sjónum var beint að hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Núna sé markmiðið að ná til sérgreinalækna og segist Ragnheiður vonast til að herferðin muni höfða til þeirra. „Við viljum benda á þau frábæru tækifæri sem eru fyrir hendi hér til að finna jafnvægi milli þess að sinna krefjandi og fjölbreyttu starfi á Sjúkrahúsinu á Akureyri og einkalífi í skemmtilegu og friðsælu samfélagi, sem er í nálægð við stórkostlega náttúru, þar sem gott er að ala upp börn, vegalengdir eru stuttar og íþrótta- og menningarlíf blómstrar,“ segir Ragnheiður.

Einnig reynt að höfða til íslenskra lækna á Norðurlöndunum

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur einnig verið í fréttum upp á síðkastið vegna verktakasamninga við sérgreinalækna, sem heilbrigðisráðuneytið telur ólöglega. Um er að ræða ferliverkasamninga og óttast heimamenn skerðingu á þjónustu sérgreinalækna, verði samningunum sagt upp. Ragnheiður segir að aðgerðir SAk til að laða fleiri sérgreinalækna til starfa á SAk tengist ekki hugsanlegum breytingum á ferliverkasamningunum og tekur fram að ekki sé búið að segja þessum samningum upp.

Að auki verður SAk með fulltrúa í starfshópi á vegum heilbrigðisráðherra sem mun á næstunni sækja heim íslenska lækna á Norðurlöndunum og þar verður þess freistað að kynna fyrir þeim spennandi starfsumhverfi SAk og þá styrku samfélagslegu innviði sem Akureyri býður upp á. Ragnheiður segir að SAk sé fyrst og fremst að leita að sérgreinalæknum í þessari ferð.

  • Frétt akureyri.net um kynningarherferð SAk: 

SAk í herferð til að ráða fleiri lækna