Fara í efni
Fréttir

SAk í herferð til að ráða fleiri lækna

Mynd: Þorgeir Baldursson

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hefur hrundið af stað nýrri kynningarherferð undir yfirskriftinni Finndu jafnvægið fyrir norðan sem miðar að því að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi atvinnutækifærum lækna á stofnuninni.

Á vef sjúkrahússins segir að í herferðinni sé sjónum sérstaklega beint að jafnvægi vinnu og einkalífs, sterkri liðsheild og þeim lífsgæðum sem Akureyri býður upp á.

„Í tengslum við herferðina hafa verið tekin viðtöl við starfandi lækna á SAk þar sem þeir deila upplifun sinni af vinnunni, samheldni starfsfólks, áskorunum og tækifærum í starfinu og lýsa því hvers vegna Akureyri sé kjörinn staður til að starfa sem læknir. Viðtölin verða birt á vefsíðu SAk og deilt reglulega á samfélagsmiðlum næstu vikur.“

Ein auglýsinganna frá Sjúkrahúsinu á Akureyri sem eru hluti umræddrar herferðar.

„Við viljum sýna fram á hversu öflugur starfsvettvangur SAk er fyrir lækna og hversu miklu máli það skiptir að finna jafnvægi milli krefjandi starfs og lífsgæða utan vinnu,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á vef SAk.

Samhliða birtingu viðtalanna fara í birtingu auglýsingar á samfélagsmiðlum þar sem áhersla er lögð á einstakt starfsumhverfi SAk og öll lífsins gæði á Akureyri.

Á vef SAk er greint frá því að í þessum mánuði muni starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sækja íslenska lækna á Norðurlöndum heim. „Hópurinn mun kynna starfsaðstæður lækna á Ísland, einkum í ljósi nýs kjarasamnings og jafnframt í víðara samhengi. Fulltrúi frá SAk fer með hópnum og munn hann kynna þeim spennandi starfsumhverfi SAk og þá styrku samfélagslegu innviði sem Akureyri býður upp á.“

Þar segir einnig: „Með herferðinni vill SAk styrkja stöðu sína sem eftirsóknarverður vinnustaður fyrir lækna og hvetja fagfólk til að finna jafnvægið fyrir norðan.“