Fara í efni
Fréttir

Mannvist í Grímsey fljótlega eftir landnám?

Unnið að fornleifauppgreftri í Grímsey. Ljósmynd: Hildur Gestsdóttir

Við undirbúning kirkjubyggingar í Grímsey fundu fornleifafræðingar gamlar minjar sem gefa vísbendingu um búsetu fljótlega eftir landnám.  Þetta kemur fram í fréttum RÚV.

Minjar frá miðöldum fundust við fornleifarannsóknir eins og fram kom hér í morgun. Akureyri.net náði ekki í Hildi Gestsdóttur, fornleifafræðing, sem er að störfum í Grímsey en hún segir í samtali við RÚV að í ljósi hafi komið „kirkjugarðsveggur sem við teljum að geti verið kirkjugarðsveggurinn að elstu kirkjunni í Grímsey. Elstu heimildir sem við höfum um kirkju hérna eru frá því um 1300. Okkur finnst ekki ólíklegt að fundnar séu minjar um elstu kirkju eyjunnar, miðað við það sem við sjáum.“

Þá kemur fram á RÚV að vísbendingar hafi fundist um mannvist fljótlega eftir landnám og að búseta hafi þá verið í eyjunni fyrr en áður var talið. „Í rauninni erum við að sjá mannvist bara fljótlega eftir að landnámsgjóskan fellur, 877. Við getum samt ekki alveg sagt með einhverri vissu hversu löngu eftir það. Í rauninni erum við bara með sögu Grímseyjar frá fyrstu tíð í þessum öskuhaug,“ segir Hildur við RÚV.

Smellið hér til að sjá frétt RÚV

Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net í morgun um minjafundinn