Fara í efni
Fréttir

Minjar frá miðöldum fundust í Grímsey

Miðgarðakirkja brann til grunna í september á síðasta ári. Ljósmynd: Karen Nótt Halldórsdóttir.

Áhugaverðar minjar frá miðöldum hafa fundist í Grímsey síðustu daga. Unnið er að undirbúningi kirkjubyggingar í eynni en Miðgarðakirkja brann til grunna á síðasta ári eins alkunna er. Smíði kirkjunnar hefst á næstu dögum.

„Hluti af undirbúningi kirkjubyggingar var fólginn í fornleifarannsóknum sem Minjastofnun Íslands fór fram á að gerðar áður en framkvæmdir hæfust. Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafa því verið við rannsóknir í eyjunni í rúmlega viku,“ segir í tilkynningu frá verkefnisstjóra kirkjubyggingarinnar.

Komið var niður á það sem talið er líklegur kirkjugarðsveggur suðvestarlega í kirkjustæðinu. Kirkjugarðsveggurinn bar þess merki að hafa verið viðhaldið um aldaskeið og er að líkindum í grunninn frá miðöldum eða fyrr.

Innan kirkjugarðs sást einnig móta fyrir talsverðum fjölda af gröfum. Í kjölfar þessa fundar var ákveðið að hnika kirkjubyggunni eilítið til þannig að ný kirkja stæði utan þessa gamla kirkjugarðs og komast þannig hjá raski á honum.

Í stæði kirkunnar fannst einnig mikill öskuhaugur. Yngstu lög hans eru líklega frá 18.-19. öld en einnig fannst talsvert magn af eldri öskuhaugi sem gæti verið frá miðöldum. Öskuhaugar geyma gjarnan ómetanlegar upplýsingar um mataræði og lífsskilyrði á fyrri öldum og er vonast til að greining á beinum og gripum úr haugnum geti veitt mikilvægar upplýsingar um sögu eyjarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem fornleifauppgröftur fer fram í Grímsey.