Fara í efni
Fréttir

Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 aftur boðnar út saman

Lóðirnar Hofsbót 1 og 3 eru á þessari mynd afmarkaðar nokkurn veginn með rauðu strikunum. Hofsbót 1 nær og 3 fjær. Bygging BSO sést í gula hringnum neðst í vinstra horni myndarinnar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Akureyrarbær hefur aftur auglýst eftir tilboðum í lóðirnar Hofsbót 1 og 3. Enginn bauð í lóðirnar síðast, en einhverjir munu hafa lýst áhuga á að bjóða í aðra lóðina af tveimur. Það hefur hins vegar ekki verið hægt því í skipulagi er gert ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir báðar lóðir og heldur skipulagsráð sig því við að bjóða lóðirnar út saman. 

Miðað er við að á báðum lóðum verði gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Heimilt er þó að vera með atvinnustarfsemi á annarri hæð. Þá er eins og áður sagði gert ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir báðar lóðirnar, með inn- og útakstri frá Strandgötu. 

Hofsbót 1 er ríflega tvö þúsund fermetrar að stærð og leyfilegt byggingarmagn rúmir sex þúsund fermetrar. Hofsbót 3 er tæplega 1.600 fermetrar og leyfilegt byggingamagn rúmlega 4.400 fermetrar.

Nú er um ár síðan lóðirnar voru boðnar út fyrst og rann tilboðsfrestur út í lok júní í fyrra. Engin tilboð bárust þá. Framhald málsins hefur meðal annars áhrif á rekstur leigubílastöðvar BSO í Hofsbót 1 því þar hafa höfuðstöðvar BSO staðið með síendurnýjuðu bráðabirgðaleyfi í áratugi. Í tengslum við skipulagsvinnu vegna lóðanna var BSO tilkynnt að ef tilboð bærist í lóðina Hofsbót 1 sem bæjarráð samþykkti þyrfti BSO að fara með starfsemi sína og húsakost af svæðinu með sex mánaða fyrirvara. 

Skýringarmynd sem fylgdi greinargerð með breytingu á skipulagi svæðisins 2021, sem sýnir mögulegar byggingar á lóðum 1 og 3 við Hofsbót, það er fyrsta áfanga í uppbyggingu samkvæmt breyttu skipulagi. Á myndinni hér að neðan eru einnig komnar byggingar þar sem nú eru bílastæði milli Glerárgötu og Skipagötu.