Kaldbakur og KEA stofna framtakssjóð
Fjárfestingafélögin Kaldbakur ehf. og KEA svf. á Akureyri hafa gert með sér samkomulag um stofnun framtakssjóðs. Sjóðurinn, Landvættir, mun fjárfesta í innlendum nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum „en er þó með sérstaka áherslu á fyrirtæki sem hafa með höndum starfsemi á landsbyggðinni,“ segir í tilkynningu um stofnun sjóðsins.
„Stefna Landvætta slhf. [samfélagshlutafélag] er að fjárfesta til lengri tíma, þ.e.a.s. líftími sjóðsins, fjárfestinga- og úrvinnslutími, er allt að 10 ár. Sjóðurinn er ekki bundinn við tilteknar atvinnugreinar heldur horfir til almennra nýsköpunarverkefna sem og vaxtar- og stækkunarmöguleika fyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.
Byrjað að fjárfesta
Fyrstu fjárfestingar sjóðsins liggja þegar fyrir. Sjóðurinn tekur við eignasafni Upphafs fjárfestingarsjóðs ehf., sem var að fullu í eigu KEA og inniheldur eignarhluti í Mýsköpun, Laxá, Arctic Therapeutics og Hinu Norðlenzka styrjufjelagi. Jafnframt hafa Landvættir slhf. undirritað samninga um fjárfestingu við tvö nýsköpunarfyrirtæki sem tilkynnt verður um á næstu dögum.
„Á næstu mánuðum munu AxUM Verðbréf hf. vinna að því að fá fleiri fagfjárfesta til liðs við sjóðinn. Markmiðið er að efla fjárhagslegan styrk Landvætta slhf. og tryggja áframhaldandi getu sjóðsins til að fjárfesta í metnaðarfullum nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum á landsbyggðinni,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.
Í upphafi munu Kaldbakur og KEA eiga jafnan hlut í sjóðnum, sem starfræktur verður hjá AxUM Verðbréfum hf.
„Öflugur sjóður – skýr framtíðarsýn“
„Með Landvættum slhf. erum við að setja á laggirnar öflugan sjóð með skýra framtíðarsýn,“ segir Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri AxUM Verðbréfa hf. og sjóðstjóri Landvætta slhf. „AxUM Verðbréf leggur áherslu á faglega sjóðastýringu og virka eftirfylgni. Markmiðið er að styðja við fjárfestingar í fyrirtækjum með vaxtarmöguleika og hafa raunveruleg áhrif á atvinnulíf og uppbyggingu á landsbyggðinni.“
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA segir félagið hafa fjárfest beint og óbeint í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á starfssvæði sínu um árabil; „stofnun Landvætta slhf. og sameining Upphafs við það er eðlilegt framhald af þeirri stefnu og sameinar krafta okkar við Kaldbak og AxUM Verðbréf. Ég hef mikla trú á þessu verkefni og til verður aukinn slagkraftur til fjárfestinga á þessu sviði sem mun hafa jákvæð áhrif á fyrirtækjaflóru nærumhverfis okkar.“
Hjörvar Maronsson, fjárfestingarstjóri Kaldbaks segir félagið hafa metnað til að taka virkan þátt í nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni með fjárfestingum sem byggja á arðsemi og ábyrgri nálgun. „Með aðkomu okkar að Landvættum slhf. finnum við þessum metnaði okkar farveg. Það er von okkar að fleiri fjárfestar sláist í lið með okkur og að sjóðurinn verði virkur fjárfestir í arðsömum nýsköpunarverkefnum og leggi þannig sitt af mörkum til öflugrar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.“