Fara í efni
Fréttir

Jakob Frímann oddviti Flokks fólksins í NA?

Jakob Frímann Magnússon þegar Stuðmenn kvöldu Sjallann á eftirminnilegum dansleik í nóvember árið 2014. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður með meiru, verður oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í næsta mánuði, að því er vefmiðillinn Austurfrétt fullyrðir í dag.

Hvorki Jakob Frímann né Inga Sæland, formaður flokksins, hafa viljað staðfesta fréttina. „Það er umræða um þetta en það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Þetta skýrist kannski í dag eða á morgun,“ sagði Jakob við mbl.is í dag. Inga Sæland sagði við sama miðil: „Ég ætla ekki að fara skemma spennuna.“

Jakob er þekktastur fyrir áratuga starf í tónlist, ekki síst sem forsprakki hljómsveitarinnar Stuðmanna. Hann hefur lengi tekið þátt í stjórnmálastarfi og var um tíma varaþingmaður Samfylkingarinnar.

Jakob Frímann á ættir að rekja til Akureyrar. Móðurafi hans var Jakob Frímannsson, lengi kaupfélagsstjóri KEA og bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn.

Smellið hér til að sjá frétt Austurfréttar.