Fara í efni
Umræðan

Íþróttahús íþróttafélagsins Þórs (sem ekki er til)

Kæru bæjarfulltrúar.

Íþróttafélagið Þór hefur engan löglegan keppnisvöll fyrir handbolta á sínu félagssvæði.

Meistaraflokkur félagsins æfir og spilar í Íþróttahöllinni, en sökum álags þar, er það frekar óreglulegt. Leikjaplani HSÍ þarf að breyta ítrekað vegna viðburða í höllinni, ráðstefnur, árshátíðir, tónleikar, söngkeppnir og fjöldinn allur af keppnum og æfingum annarra íþróttagreina.

Íþróttahúsið við Síðuskóla var held ég sérstaklega hannað og skipulagt á sínum tíma, af aðilum sem stóðu í þeirri trú að Þór myndi sennilega ekki ætla sér að halda úti handknattleiksdeild.

Þegar iðkendur yngri flokka handknattleiksdeildar Þórs eiga keppnisleik er foreldrum og aðstandendum þeirra boðið uppá að sitja annaðhvort á bekkjum sem ætlaðir eru til að auka jafnvægi í fimleikum eða nokkrum stólum sem þarf að „stela“ út matsal Síðuskóla. Það eru fínir áhorfendapallar í Síðuskóla en vandamálið við þá er að þeir ná ca 2 metra inn á handboltavöllinn þegar þeir eru settir upp.

Starf handknattleiksdeildar Þórs er tætingslegt, deildin hefur engan samastað sem tengir iðkendur við félagið, yngri flokkarnir æfa í Síðuskóla og meistaraflokkur í höllinni en þeir skottast svo í Síðuskóla þegar höllin er upptekin. Þannig að handknattleiksiðkandi hjá Þór getur æft handbolta í 15 ár án þess að „þurfa“ að koma í Hamar, félagsheimili og hjarta Þórs.

Fyrir foreldra er þetta alls ekki gott. Starfsemi deildarinnar fer meira fram í Síðuskóla og höllinni en í félagsheimilinu. Foreldrafundir eru oftar en ekki í Síðuskóla, vegna þess að þeir eru mjög oft strax á eftir æfingu. Þannig að tengingin við félagið er lítil.

Stúlkur sem æfa handbolta hjá Þór, í sameiginlegu liði KA/Þórs, æfa í Síðuskóla, Naustaskóla, Höllinni og KA heimilinu oftast í amk þremur húsum hver flokkur. Þetta er glórulaust.

Körfuknattleiksdeild Þórs er svo með afnot af höllinni líka eins og handknattleiksdeildin, en vegna skorts á tímum þar eru æfingar í íþróttahúsinu við Glerárskóla líka. Þar er nýtt parket og nýjar körfur, gallinn er bara sá að aðalkörfur hússins eru ekki löglegar sem keppniskörfur. Þetta er einhvernveginn allt svona. Byggt of lítið og ekki eftir reglum eða þörfum.

Hvert erum við að stefna?

Íþróttir eru einhver mesta forvörn fyrir börn og unglinga. Það er alveg sama í hvaða horn er litið í þeim efnum, félagslegi hlutinn er stór og hreyfing er öllum nauðsynleg. Bærinn iðar af íþróttalífi og fjölbreytnin er eitthvað sem við bæjarbúar getum verið stolt af. EN, þegar kemur að skipulagðri keppni iðkenda Þórs í handbolta eða körfubolta er þröngan stakk í að fara.

Íþróttahöll Akureyrar er eins og Herðubreið, drottning allra íþróttahúsa á Akureyri, eins og með margar drottningar er hún vinsæl. Svo vinsæl að hún getur ekki sinnt starfi hirðarinnar.

Drottningu vantar konung

Bæjaryfirvöld verða að fara taka alvarlega þá bláköldu staðreynd að það bráðvantar eitt stykki íþróttahús á félagssvæði Þórs. Það myndi leysa allan vanda boltaíþrótta að vetrarlagi.

Það er ekkert leyndarmál að bæjarfulltrúar hafa komið að máli við hæstráðendur hjá Þór og hreinlega beðið þá um að leggja niður handbolta, hætta með handbolta vegna aðstöðuleysis. Gert grín að ráðningu þjálfara handknattleiksdeildarinnar opinberlega. Hef ég heyrt margt skrautlegt um ævina en þetta fer á toppinn.

Iðkendahópur handknattleiksdeildarinnar hefur haldist nánast óbreyttur í amk 10 ár en þó eitthvað aukist síðustu 2 ár. Það er afrek þar sem ekki hefur verið nein uppbygging íbúðahverfis í 603 í mörg ár, en af iðnaðarhúsnæði á fallegasta byggingarstað Akureyrar er nóg. Hvers vegna ætti íþróttafélag að leggja niður heila deild þar sem þeir sem stjórna bænum, eitt kjörtímabil í senn, sjá ekki lausnir heldur vandamál? Framundan er mikil uppbygging íbúðahverfa í þorpinu á næstu árum. Miðað við fjölda íbúða er það deginum ljósara að iðkenda fjöldi hjá Þór mun stökkbreytast.

Bæjaryfirvöld verða að grípa strax inní og fara að byggja upp aðstöðu á félagssvæði Þórs. Hjá Þór eru handknattleiksdeild, körfuknattleiksdeild, píludeild, rafíþróttadeild og keiludeild svo til heimilslausar ef ekki algjörlega heimilislausar. Það þarf að ráðast í byggingu íþróttahúss við Hamar strax og það þarf að fara alla leið með þá byggingu ekki bara hálfa. Það þarf að byggja þetta þannig að eftir 30 ár standi það húsnæði enn undir þeirri starfssemi sem ætlast sé til að hún hýsi. Hugsa stórt og framkvæma á fullri ferð.

Hugsa stórt

Fyrir nokkrum árum var farið í að endurnýja gólfið í skautahöllinni fyrir amk 150 milljónir króna, núna þarf að reisa félags og æfingaaðstöðu þar fyrir amk aðrar 150 milljónir króna. Þetta er nauðsynlegt það er alveg á hreinu, en það sem ég er að segja er, ef menn hefðu hugsað stórt, þá hefði kannski verið réttast að ráðast í að byggja skautahöll samtengda Boganum. Mér finnst það reyndar eina rétta í stöðunni. Ef þar væri líka íþróttahús með tveimur keppnisvöllum, hefðu karfan og handboltinn aðstöðu fyrir sig, skautafélagið hefði aðstöðu fyrir sig og búningsaðstaða, félagasaðstaða, salerni, húshitun og allt annað sem viðkemur daglegum rekstri þessara mannvirkja væri á einum stað fyrir allan þann fjölda iðkenda sem þar gæti notið úrvals aðstöðu á mun hagkvæmari hátt en gert er í dag. Egilshöll er ágætis dæmi um það hvernig hægt að gera hlutina

Tvær flugur í einu höggi

Getum við breytt núverandi skautahöll í knattspyrnuhöll? Hlutfallslega býr mestur fjöldi iðkenda KA þarna rétt fyrir ofan. Eða gætum við breytt henni í keiluhöll og samtvinnað þar aðra afþreyingu td aðstöðu fyrir golfæfingar yfir vetrartímann?

Eftir að ég las skrif Jonna, þjálfara meistarflokks KA í handbolta, þá má segja að staðan sé ekkert ósvipuð hjá okkur og handknattleiksdeild KA. Þeir reyndar búa við mun betri aðstæður en við hjá Þór þ.e.a.s þeir eru þó á félagassvæðinu með allt sitt, en við komumst þó í sturtu.

Meistaraflokkur Þórs í handbolta hefur sinn eigin klefa í höllinni og gerðu leikmenn og velunnarar klefann að því sem hann er í dag upp á sitt einsdæmi. Einnig hefur meistaraflokkur yfir að ráða ágætis aðstöðu fyrir lyftingar og líkamsrækt. En leikmenn stóðu straum af kostnaði allra tækjanna með allskyns ráðum og dáðum. Þeir settu þetta allt upp sjálfir og máluðu líka... með bros á vör.

Höllin gæti þá nýst vel á því félagssvæði sem hún tilheyrir.

Innanhúsíþróttir hjá Þór ættu loksins heimili.

Með von um breyttan hugsanahátt, meiri kjark og metnað bæjarfulltrúa í uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Árni Rúnar Jóhannesson er formaður handknattleiksdeildar Þórs.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45