Fara í efni
Umræðan

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri

Að tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annarsstaðar í heiminum. Akureyrarbær hefur sett sér aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra sem unnið er eftir og tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Veigamiklir póstar eru hins vegar eftir í þeirri vegferð bæjarins að verða aldursvænt samfélag þar sem er gott að eldast. Húsnæðis- og skipulagsmál eru þar á meðal.

Húsnæðisþarfir, skipulag og farsæl öldrun

Aldursvænt bæjarfélag tryggir öllum hópum húsnæði á viðráðanlegu verði, sem er vel hannað og öruggt. Í aldursvænum hverfum er gott að rækta og efla andlega heilsu jafnt á við þá líkamlegu og félagslegu. Þar er því stutt í fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf og umhverfið er aðlaðandi og aðgengilegt. Skipulagið tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara og dregur þannig úr félagslegri einangrun. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.

Það á að vera sameiginlegt markmið okkar að tryggja fjölþætta búsetuvalkosti sem henta þörfum aldraðra og gera fólki kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Árið 2038 verður hlutfall þeirra sem eru eldri en 65 ára yfir 20% mannfjöldans og árið 2064 yfir 25%. Nú er það 14%. Gott er að hafa í huga að megnið af því húsnæði sem verður í boði árið 2038 er nú þegar búið að byggja þetta herrans ár 2023, og drjúgur hluti þess er eldra húsnæði sem fyrir margar sakir hentar illa þeim markmiðum að fólk geti búið sem lengst á eigin vegum. Þessu húsnæði er dýrt að breyta og þess vegna verðum við að horfa til uppbyggingar á nýjum hverfum og tryggja að þar séum við að skapa húsnæðislausnir sem eru sveigjanlegri og taka mið af breytilegum þörfum einstaklinga.

Hvar er svigrúm fyrir aldursvæn hverfi þegar minnka á við sig?

Framundan er vinna við breytingu á aðalskipulagi bæjarins og viljum við í Framsókn horfa til heildstæðrar uppbyggingar á húsnæði og þjónustu fyrir eldri borgara. Við þurfum að leyfa okkur að hugsa stórt og til lengri framtíðar ef við ætlum okkur að ná öllum markmiðum okkar í málefnum eldri borgara. Á bæjarstjórnarfundi 4. október síðastliðinn lögðum við til við bæjarstjórn að sveitarfélagið myndi hefja samtal og samráð við öldungaráð og Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi Nausta- og Hagahverfi að aldursvænni hverfum með tilliti til þjónustu og samkomustaða. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Hvers vegna ekki þá að taka skrefið til fulls og skipuleggja sérstakt svæði fyrir eldri borgara í Hagahverfi? Nógu stórt í sniðum þannig að þar sé bæði grundvöllur og aðstaða fyrir margvíslega þjónustu, bæði sérsniðna fyrir eldri borgara en líka þjónustu sem gæti nýst öðrum íbúum í hverfunum.

Langlífi og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Við þurfum meira en bara aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara á Akureyri - við þurfum framtíðarsýn um hvernig aldursvæn Akureyrarborg lítur út.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15