Fara í efni
Íþróttir

„Gáttaður að sjá hvers þeir voru megnugir“

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXII

Kvenna- og karlalið Þórs í körfubolta verða bæði í eldlínunni í dag í mikilvægum leikjum. Af því tilefni er gamla íþróttamyndin þessa vikuna af körfuboltamönnum félagsins seint á áttunda áratug síðustu aldar.

Aftari röð frá vinstri: Magnús Jónatansson, Pétur Sigurðsson, Einar Bollason, Ragnar Þorvaldsson, Ingólfur Hermannsson og Herbert Jónsson stjórnarmaður.

Fremri röð frá vinstri: Númi Friðriksson, Bjarni Jónasson, Jón Friðriksson, Guðni Jónsson og Ævar Jónsson.

Það vakti mikla athygli þegar Þórsarar unnu sér rétt til keppni í efstu deild í körfubolta haustið 1967. Liðið var stundum kallaði Knattspyrnumennirnir, vegna þess að megnið af liðsmönnum voru fótboltamenn með ÍBA sem stundum körfubolta að gamni sínu yfir vetrartímann.

Hálfgert slys!

Magnús heitinn Jónatansson, sem tók á sínum tíma þátt í fimm landsleikjum í knattspyrnu, rifjaði upp í samtali við Dag vorið 1994, þegar Þórsliðið fór fyrst upp í efstu deild í körfubolta. Hann sagði það hafa verið hálfgert slys: „Við sem í þessu vorum æfðum í raun ekki körfubolta nema til að leika okkur. Við lentum síðan í því að spila um laust sæti sem opnaðist. Þetta var að hausti til, við allir í góðu formi úr fótboltanum þó enginn hafi verið í körfubolta allt sumarið. Við unnum þennan leik og vorum þar með komnir upp.“

Einar Bollason, landsliðsmaður úr KR, tók við þjálfun Þórs á Akureyri haustið 1967, auk þess að leika með liðinu, og var fyrir norðan í tvö ár. Í bókinni Riðið á vaðið – þættir úr lífi Einars Bollasonar, sem kom út 1994, segir hann meðal annars: „Þórsliðið, sem hafði tryggt sér sæti í 1. deild, var svo til eingöngu skipað leikmönnum ÍBA-liðsins í knattspyrnu. Kappar á borð við Magnús Jónatansson, Jón Friðriksson, Pétur Sigurðsson, Guðna Jónsson og Ævar bróður hans prýddu liðið. Þeir höfðu æft körfuknattleik aðallega sér til ánægju en ekki með það fyrir augum að ná sérstökum árangri. Ég varð því alveg gáttaður þegar ég kom norður og sá með eigin augum hvers þeir voru megnugir á körfuboltavellinum. Keppnisskapið var gríðarlega mikið og keppnisreynslan ekki síðri og kom hún svo sannarlega að góðum notum. Það var ógleymanlegt að vinna með þessum strákum…“

Einar segir jafnframt í bókinni: „Sú ákvörðun mín að ganga til liðs við Þórsara féll í misjafnan jarðveg hjá vinum mínum og félögum. Sumir vöruðu mig við því að aðkomumönnum væri yfirleitt ekki vel tekið á Akureyri. Ég varð aldrei var við það, enda var mér tekið sérstaklega vel frá fyrsta degi. Tíminn þar var yndislegur. Mér leið afskaplega vel á Akureyri, ég varð fljótt grjótharður Þórsari og er það enn.“