Fara í efni
Mannlíf

Fyrir 80 árum við Spítalaveg 15

80 ár eru í dag síðan þessi fallega mynd var tekin í garðinum við Spítalaveg 15 á Akureyri, heimili Sigurgeirs Jónssonar organista frá Stóruvöllum í Bárðardal og Friðriku Tómasdóttur húsfreyju, frá Litluvöllum í Bárðardal. Nöfn allra á myndinni er að finna neðst í fréttinni.

Mikil gleði einkennir myndina og ekki að ósekju; hún er tekin á afmælisdegi Friðriku og skírnardegi Berthu, dóttur Vigfúsar Sigurgeirssonar og Valgerðar Magnúsdóttur. Friðrika var fædd 21. júlí 1872 og varð því 73 ára daginn sem myndin var tekin – 21. júlí árið 1945. Friðrika og Sigurgeir eignuðust níu börn, sjö drengi og tvær stúlkur en önnur þeirra, Agnes, lést ung að árum.

Á myndinni með gömlu hjónunum eru börn þeirra; dóttirin Hermína og synirnir Páll, Vigfús, Gunnar, Eðvarð, Jón, Hörður og Haraldur, tengdabörn Friðriku og Sigurgeirs og öll barnabörnin sem þarna höfðu litið dagsins ljós nema það elsta, Sverrir Pálsson, síðar skólastjóri sem var fjarverandi vegna náms.

Þegar myndin var tekin voru hjónin Hermína Sigurgeirsdóttir Kristjánsson og Björn Kristjánsson, sem bjuggu í Þýskalandi öll stríðsárin, nýkomin heim frá Danmörku með Esjunni ásamt sonum sínum Birni og Leifi.

Myndin er úr safni eins sona Sigurgeirs og Friðriku, Vigfúsar Sigurgeirssonar, hins þekkta ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanns. Myndin er birt hér og nú í tilefni þess að Akureyri.net mun á næstunni birta myndir úr safni Vigfúsar með góðfúslegu leyfi sonar hans, Gunnars Vigfússonar ljósmyndara.

Þrjú þeirra sem eru á myndinni eru enn á lífi, Hallgrímur Jónsson, Erla Gunnarsdóttir og Gunnar Geir Vigfússon.

Fátt gleður fólk meira en gömul ljósmynd og það er næsta víst að margir mun gleðjast mjög þegar myndir Vigfúsar birtast.

Akureyri.net birti nokkrar myndir Vigfúsar Sigurgeirsonar fyrir mánuði, á árlegum Flugdegi Flugsafns Íslands á Akureyri, og þær vöktu mikla lukku. Smellið hér til að sjá þær myndir.

Fremst, frá vinstri: (1) Björn Björnsson, (2) Hrafnhildur Kristín Jónsdóttir, (3) Gylfi Pálsson, (4) Agnes Haraldsdóttir og (5) Leifur Björnsson.

Sitjandi, frá vinstri: (6) Jón Sigurgeirsson, (7) Hallgrímur Jónsson (Moni), (8) Björn Kristjánsson, (9) Júlíana Friðrika Tómasdóttir, (10) Sigurgeir Jónsson, (11) Hermína Sigurgeirsdóttir Kristjánsson, (12) Valgerður Magnúsdóttir, (13) Bertha Vigfúsdóttir.

Standandi, frá vinstri: (14) Hrefna Hallgrímsdóttir, (15) Friðgeir Gunnarsson, (16) Gunnar Sigurgeirsson, (17) Eðvarð Sigurgeirsson, (18) Sigríður Oddsdóttir, (19) Páll Sigurgeirsson, (20) Helga Haraldsdóttir, (21) Haraldur Sigurgeirsson, (22) Hanna Martina Jakobsen Sigurgeirsson, (23) Sigríður Pálína Jónsdóttir, (24) Hörður Sigurgeirsson, (25) Erla Gunnarsdóttir, (26) Gunnar Geir Vigfússon og (27) Vigfús Sigurgeirsson.