Fara í efni
Menning

Gersemar Vigfúsar komnar á vefinn

Skjáskot úr myndskeiði Vigfúsar Sigurgeirssonar frá heimsókn forseta Finnlands og Íslands norður í land í ágúst 1957; Ásgeir Ásgeirsson, Dóra Þórhallsdóttir, Uhro og Sylvi Kekkonen eru hér ásamt fríðu föruneyti á Akureyri og í Mývatnssveit.

Mikið efni eftir Akureyringinn Vigfús Sigurgeirsson hefur verið sett inn á vef Kvikmyndasafns Íslands, Ísland á filmuislandafilmu.is. Vefurinn hefur hlotið ákaflega góðar viðtökur frá því að hann opnaði árið 2020, skv. upplýsingum frá safninu, og hefur að geyma um 700 myndskeið og heilar myndir sem fólk getur horft á. 

Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður.

Vigfús Sigurgeirsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar og í því myndefni sem birtist nú almenningi er að finna hluta af því myndefni sem Vigfús tók á ferðum forseta Íslands. 

Frá heimsókn Urhos Kekkonens forseta Finnlands og Sylvi eiginkonu hans til Akureyrar í ágúst árið 1957. Forsetinn ávarpar mannfjölda fyrir utan Hótel KEA, Karlakórinn Geysir söng við tilefnið og neðst til hægri þakkar forsetinn stjórnanda kórsins, Árna Ingimundarsyni.

Við stofnun lýðveldis á Íslandi var Vigfús gerður að sérstökum ljósmyndara hins nýja forsetaembættis. Þeirri skyldu gegndi hann í forsetatíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar og skrásetti marga merkilega viðburði og ferðalög þeirra bæði á ljós- og kvikmyndum. Stærstur hluti þess efnis hefur sjaldan eða aldrei verið sýndur opinberlega.

Forsetahjónin og fylgdar lið komu m.a. við í Sundlaug Akureyrar.

Meðfylgjandi eru skjáskot úr myndskeiði sem Vigfús tók þegar finnsku forsetahjónin, Uhro og Sylvi Kekkonen, komu í opinbera heimsókn til Íslands í ágúst árið 1957. „Ásgeir Ásgeirsson forseti og Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú taka á móti forsetahjónunum. Flogið er til Akureyrar þar sem móttaka á sér stað við Akureyrarkirkju. Forsetarnir koma víða við, meðal annars í Reykjahlíð og á Geiteyjarströnd þar sem vel fer á með Kekkonen og ábúendum í sveitinni,“ segir í tilkynningu frá Kvikmyndasafni Íslands.

  • Myndskeið Vigfúsar sem um ræðir í fréttinni er rúmar sex mínútur – smellið á nafnið til að horfa:

Kekkonen Finnlandsforseti ferðast um Norðurland

  • Myndskeiðið er úr 15 mínútna kvikmynd – smellið á nafnið til að horfa á hana alla:

Kekkonen Finnlandsforseti á Íslandi 1957

Uhro Kekkonen ásamt heimamönnum í Mývatnssveit.