Fundur með eldri borgurum á Akureyri

Það var bæði lærdómsríkt og ánægjulegt fyrir okkur stjórnarliða að mæta á fund kjarahóps eldri borgara á Akureyri þann 9. maí síðastliðinn. Þar var leitað eftir sýn alþingismanna í Norðausturkjördæmi á kjör og stöðu eldra fólks í samfélaginu.
Ríkisstjórnin er samhent í því markmiði að bæta kjör eldri borgara og stöðva þá kjaragliðnun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Í þessu sambandi hefur ríkisstjórnin meðal annars lagt fram frumvarp sem kveður á um að örorku- og ellilífeyrir skuli hækka á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu, en þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Verði þetta frumvarp að lögum er tryggt að ellilífeyrir fylgi kjaraþróun í landinu.
Hafa ber í huga að það eru öfl í samfélaginu sem leggjast gegn umræddri breytingu meðal annars Verslunarráð og glæný forysta Sjálfstæðisflokksins.
Á fundinum komu fram fjölmargar gagnlegar spurningar, meðal annars um skerðingar á lífeyrisgreiðslum. Margir lýstu þeirri skoðun að skerðingar væru orðnar svo umfangsmiklar að skyldugreiðslur í lífeyrissjóði bæru nú frekar einkenni skatta en raunverulegra réttinda. Þetta ástand mætti að hluta rekja til þess að frítekjumark ellilífeyris hefur staðið í stað í heilan áratug. Einnig kom fram vel rökstudd tillaga um að breyta heiti lífeyrissjóða í „eftirlaunasjóði“, þar sem það var talið endurspegla betur raunverulegt eðli greiðslnanna.
Sérstaka athygli vakti kynning á metnaðarfullum framtíðaráformum um húsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri, sem ætlað er að mæta þeirri vaxandi þörf sem samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á.
Fundurinn einkenndist af málefnalegri umræðu og fjölbreyttum fyrirspurnum. Hér á eftir verður leitast við að svara þeim spurningum sem stóðu eftir ósvaraðar að loknum fundinum.
Sigurjón Þórðarson er þingmaður Flokks fólksins
1) Hvers vegna er kílómetragjald til sjúklinga sem sækja sér læknishjálp mun lægra en það sem ríkisstarfsmenn fá greitt fyrir akstur í starfi?
Munurinn á kílómetragjaldi sjúklinga og ríkisstarfsmanna stafar af því að um er að ræða tvö ólík kerfi sem hafa mismunandi tilgang. Sjúklingar fá greiddan ferðakostnað sem styrk og miðast hann við fyrirframákveðna fjárhæð, nú 40 kr. á kílómetra. Þessi styrkur á ekki að endurspegla fullan rekstrarkostnað bifreiðar heldur veita fólki stuðning.
Ríkisstarfsmenn fá hins vegar greitt akstursgjald samkvæmt kjarasamningum, sem er hluti af launakjörum þeirra og miðast við raunverulegan kostnað við notkun einkabifreiðar í vinnu. Akstursgjaldið nemur nú 141 kr. á kílómetra fyrir fyrstu 10.000 km.
2) Hver er þrepaskipting greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í lyfjakostnaði?
Greiðsluþátttaka sjúkratryggðra í lyfjakostnaði fer fram samkvæmt þrepaskiptu kerfi sem byggir á 12 mánaða tímabili. Fullorðnir einstaklingar hefja tímabilið í fyrsta þrepi þar sem þeir greiða að fullu fyrir lyf sín, að teknu tilliti til árlegrar afsláttar upp á 6.000 kr. Þetta þýðir að einstaklingur greiðir að hámarki 20.000 kr. úr eigin vasa í fyrsta þrepi, þó að heildarverð lyfjanna geti verið allt að 26.000 kr. Þegar lyfjakaup ná þeirri fjárhæð færist viðkomandi í annað þrep. Þá greiðir einstaklingur aðeins 15% af lyfjakostnaði en Sjúkratryggingar Íslands greiða 85%, þar til heildarkostnaður lyfja nær 69.000 kr. Eftir það tekur þriðja þrepið við, en þá greiðir einstaklingur aðeins 7,5% af lyfjakostnaði og Sjúkratryggingar Íslands greiða 92,5%. Þannig lækkar greiðslubyrði einstaklings eftir því sem lyfjakostnaður hækkar.
Eldri borgarar njóta sérstakrar afsláttarheimildar samkvæmt 6 tl. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Þar er kveðið á um að gjald fyrir lyf skuli vera lægra hjá þessum hópi og aldrei hærra en 2/3 hlutar af fjárhæðum sem gilda í hverju þrepi fyrir aðra sjúkratryggða.
Í framkvæmd þýðir þetta að eldri borgarar greiða að fullu fyrir lyf sín í fyrsta þrepi allt að 16.050 krónur (í stað 26.000 kr.). Þannig greiða þeir að hámarki 10.050 krónur úr eigin vasa í fyrsta þrepi, að teknu tilliti til 6.000 króna afsláttar sem dregst frá fyrstu lyfjakaupum. Þegar heildarkostnaður lyfja fer yfir þá upphæð tekur annað þrepið við. Eldri borgarar greiða þá 15% af heildarkostnaði lyfja og sjúkratryggingar greiða 85% og gildir það hlutfall þar til lyfjakaup hafa náð samtals 64.200 krónum (í stað 69.000 kr.). Umfram þá upphæð greiða eldri borgarar aðeins 7,5% af lyfjakostnaði, rétt eins og aðrir.
3) Hver er kostnaðarþátttaka ríkisins í tengslum við heyrnartæki og gleraugu fyrir eldri borgara?
Styrkur vegna kaupa á heyrnartækjum
Einstaklingar 18 ára og eldri, sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og hafa greinst með ákveðið mikla heyrnarskerðingu, eiga rétt á styrk frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kaupa á heyrnartækjum, allt að 60.000 krónur fyrir hvert heyrnartæki. Styrkurinn er veittur að hámarki einu sinni á fjógurra ára fresti. Þó er heimilt að veita nýjan styrk fyrr ef heyrn einstaklings hefur breyst umtalsvert að mati sérfræðings.
Greiðsluþátttaka ríkisins í gleraugnakostnaði fyrir eldri borgara
Eldri borgarar sem eru sjúkratryggðir hér á landi geta, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, átt rétt á greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Réttur til greiðsluþátttöku byggir á reglugerð nr. 1155/2005 og er bundinn við tilvik þar sem einstaklingar þjást af tilteknum augnsjúkdómum eða sjónvandamálum sem tilgreindir eru í reglugerðinni.
Greiðsluþátttaka ríkisins nær aldrei hærri fjárhæð en kaupverð glerjanna samkvæmt framlögðum reikningi. Réttur til greiðsluþátttöku endurnýjast að jafnaði á þriggja ára fresti. Ef sjónlag einstaklings breytist umtalsvert áður en sá frestur er liðinn, getur sérgreinalæknir óskað eftir að réttur til greiðsluþátttöku ríkisins verði endurskoðaður.


„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi

Líflínan
