Fara í efni
Menning

Falleg ástarsaga Íslandskortanna

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, við opnun sýningarinnar í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sýningin Ástarsaga Íslandskortanna hófst á Minjasafninu á Akureyri í dag; þar gefur að líta hluta af stórmerkilegri gjöf sem þýsk hjón færðu Akureyrarbæ. Það var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem opnaði sýninguna.

Það var árið 2014 sem hjónin dr. Karl-Werner Schulte (1946) og dr. Gisela Schulte-Daxbök (1952-2019) færðu Akureyrarbæ safn einstakra landakorta af Íslandi, alls 76 kort, gerð af helstu kortagerðarmönnum Evrópu frá 1500-1800. Ástarsaga þeirra hjóna er samofin Íslandi og þessum fornu kortum sem fylltu veggi heimilis þeirra í Johannesberg.

Síðar bættust 16 kort við og á síðasta ári kom Karl-Werner enn færandi hendi og bætti 50 fágætum Íslandskortum við safnið! Hér er frétt Akureyri.net um það.

„Ég stóðst ekki mátið“

Karl-Werner og Gisela komu fyrst til bæjarins 1971 og oft síðan, m.a. í brúðkaupsferðinni 1976. Þau ákváðu í samráði við syni sína þrjá að best væri að safnið yrði varðveitt sem heild og yrði öðrum til ánægju og gagns. Þau vildu helst af öllu að það færi til Akureyrar, sem þau höfðu tekið miklu ástfóstri við og heimsótt reglulega.

Veggir heimilisins í Jóhannesberg tæmdust, bókstaflega, og þar með héldu hjónin að söfnun Íslandskorta væri lokið, sagði Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, við opnun sýningarinnar í dag. Fljótlega fóru safninu þó að berast tölvupóstar. „Við fundum eitt kort sem er einstakt! Búinn að vera á höttunum eftir því í 40 ár! Á ég að kaupa það? “ Stuttu síðar kom svarið í tölvupósti. „Þú fyrirgefur en ég stóðst ekki mátið.“

Svo mjög heilluðust þau af Akureyri að hjónin ákváðu að hér skyldu þau lögð til hinstu hvílu þegar þar að kæmi, nærri kortunum sem stóðu hjarta þeirra svo nærri. Gisela lést 2019 og er jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Frétt Akureyri.net um það í fyrrasumar vakti mikla athygli. Smellið hér til að lesa hana.

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, við opnun sýningarinnar í dag.

Kortin vöktu verðskuldaða sýningargesta í dag.

Hjónin færa Akureyrarbæ Íslandskortin árið 2014. Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Karl-Werner Schulte, Gisela Schulte-Daxbök og Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri á Minjasafninu.