Fara í efni
Fréttir

50 Íslandskort bætast í Schulte safnið

Gleðidagur! Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Karl-Werner Schulte brosa til ljósmyndarans, Ragnars Hólm Ragnarssonar, verkefnastjóra upplýsinga- og kynningarmála og aðstoðarmanns bæjarstjóra, á Minjasafninu í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þjóðverjinn dr. Karl-Werner Schulte kom enn einu sinni færandi hendi til Akureyrar í gær, þegar hann afhenti sveitarfélaginu 50 fágæt Íslandskort að gjöf.

Karl-Werner og eiginkona hans heitin, dr. Gisela Schulte-Daxbök, hófu að safna Íslandskortum fyrir margt löngu; það elsta er frá 1530 og þau söfnuðu ekki yngri kortum en frá því um 1800. Hjónin heilluðust snemma af Íslandi og Akureyri sérstaklega, svo mjög reyndar að þau ákváðu að hér skyldu þau lögð til hinstu hvílu. Gisela lést 2019 og er jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Frétt Akureyri.net um það í sumar vakti mikla athygli. Smellið hér til að lesa hana.

Hjónin færðu Akureyrarbæ 76 stórmerkileg Íslandskort að gjöf árið 2014. Síðar bættust 16 kort við og í gær afhenti Karl-Werner 50 kort til viðbótar. Í safninu, sem kennt er við hjónin, eru nú 143 Íslandskort. 

Hlut Schulte-safnsins er nú til sýnis í Minjasafninu á Akureyri, þar sem kortin eru varðveitt. Meðal þess sem prýðir veggi safnsins er eitt allra merkilegasta kortið úr safni hjónanna; kort þess stórmerka Abraham Ortelius frá 1585. Schulte hjónin keyptu það á 800 þýsk mörk á sínum tíma, andvirði um 400 evra í dag, um 60.000 króna. Karl-Werner segir kortið nú metið á 15.000 evrur, sem jafngildir rúmlega tveimur milljónum króna. 

Eitt allra merkilegasta kortið í Schulte safninu; kort þess stórmerka Abraham Ortelius frá 1585.

Ásthildur Sturludóttir,  bæjarstjóri, Karl-Werner Schulte og Sigfús Karlsson, formaður stjórnar Minjasafnsins, hengja upp þrjú kort á safninu í gær.

Fremst frá vinstri: Sigfús Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Ragnar Hólm Ragnarsson og Ragna Gestsdóttir.

Sædís Gunnarsdóttir, eiginkona Haraldar Þórs Egilssonar, safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri, Haraldur Þór, Karl-Werner Schulte og Sigrún Stefánsdóttir.

Stjórnarmenn Minjasafnsins á Akureyri ásamt Karl-Werner og Haraldi safnstjóra. Frá vinstri: Inga Elísabet Vésteinsdóttir, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, Karl-Werner Schulte, Haraldur Þór Egilsson, Elísabet Ásgrímsdóttir og Sigfús Karlsson. Einn stjórnarmaður, Þorsteinn Krüger, var því miður horfinn af vettvangi þegar myndin var tekin.