Fara í efni
Mannlíf

Þýsk hjón heilluðust af bænum og völdu að hvíla í Lögmannshlíð

Karl-Werner Schulte við leiði Giselu eiginkonu sinnar í Lögmannshlíðarkirkjugarði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þýsk hjón, prófessor dr. Karl-Werner Schulte og dr. Gisela Schulte-Daxbök, sem færðu Akureyrarbæ að gjöf stórmerkilegt safn Íslandskorta árið 2014, komu fyrst til bæjarins 1971 og oft síðan, m.a. í brúðkaupsferðinni 1976. Hjónin heilluðust svo af Akureyri að þau ákváðu að hér skyldu þau lögð til hinstu hvílu þegar þar að kæmi. Gisela lést 2019 og er jarðsett í Lögmannshlíðarkirkjugarði.

Karl-Werner hefur dvalið á Akureyri undanfarið. Meginástæða ferðarinnar að þessu sinni er 45 ára brúðkaupsafmæli þeirra Giselu 17. júlí síðastliðinn auk þess sem afmælisdagur eiginkonu hans heitinnar er einnig í júlí.

Jafnvel merkilegra en kortaeign Landsbókasafnsins

Kortin, sem hjónin höfðu safnað í áratugi, eru varðveitt í Minjasafninu á Akureyri og hluti þeirra sýndur árlega. Þessa dagana prýðir til að mynda fjöldi korta veggi safnsins.

Elsta kort hjónanna er frá 1530 og þau söfnuðu ekki yngri kortum en frá því um 1800. Fyrst í stað keyptu þau einungis kort af landinu sjálfu og hafinu í kring, og segir Karl-Werner að í þann hluta safnsins vanti aðeins þrjú eða fjögur af þeim sem vitað er um í heiminum. Það sem þau eignuðust af því tagi sé að minnsta kosti jafn merkilegt og kort í eigu Landsbókasafns Íslands, jafnvel enn merkilegra.

Upphaflega færðu hjónin Akureyrarbæ 76 kort. Á síðustu árum hefur bæst í safnið og Karl-Werner sagði Akureyri.net að hann kæmi aftur í haust með eitthvað á fimmta tug korta til viðbótar. Þá verða kort frá Schultehjónunum í vörslu safnsins orðin um 140.

Hjónin færa Akureyrarbæ Íslandskortin árið 2014. Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Karl-Werner Schulte, Gisela Schulte-Daxbök og Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri á Minjasafninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.