Fara í efni
Fréttir

Endanleg mynd á Norðurgötu 3-5-7?

Fram er komin ný og að því er virðist endanleg tillaga um uppbyggingu á lóðum nr. 3 til 7 við Norðurgötu og leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi. Gert er ráð fyrir að byggja tvö fjórbýlishús sem verða tvær hæðir og ris. 

Tillaga að uppbyggingu á lóðum nr. 3 til 7 við Norðurgötu komu fyrst til skoðunar á fundi skipulagsráðs í maí á þessu ári, en þá hafði verið auglýst eftir áhugasömum til þróunar á lóðinni Norðurgötu 5-7. Skipulagsráð ákvað að ganga til samninga við Trésmiðju Ásgríms Magnússonar á Akureyri, sem hafði áður keypt lóðina nr. 3, en hús á þeirri lóð brann fyrir nokkrum árum. Afgreiðslu var frestað í maí, en endurskoðuð tillaga tekin fyrir á fundi 5. júlí. Akureyri.net sagði ítarlega frá fyrstu hugmyndum um uppbyggingu á lóðunum, en upphaflega voru lagðar fram þrjár mismunandi útfærslur. 

Nú virðist komin endanleg mynd á þessi áform og samkvæmt umsókn um breytingu á deiliskipulagi sameinast lóðir 3, 5 og 7 í eina lóð, Norðurgötu 3-5-7. Gert er ráð fyrir að sameinuð lóð stækki um 56,4 fermetra til vesturs að lóð við Gránufélagsgötu 28, en stækkunin nær til svæðis sem tilheyrir akureyrarbæ. Lóðirnar voru samtals rúmir 1.116 fermetrar, en verða 1.172,5 fermetrar. Vegghæð húsanna samkvæmt tillögunni verður 7,6 metrar frá aðliggjandi gangstéttum (6,8 m yfir gólfkóta sem verður 0,6 metrum yfir gangstéttum), en þakhæðin 10,9 metrum yfir aðliggjandi gangstéttum.


Deiliskipulagið eins og lagt er til að það verði. Innan rauða kassans má sjá útlínur húsa á lóðum 3, 5 og 7 við Norðurgötu. Skjáskot úr umsókninni.


Gildandi deiliskipulag á lóðunum, samþykkt í bæjarstjórn 4. febrúar 1997. Skjáskot úr umsókninni.