Fara í efni
Fréttir

Eldri borgarar vilja gjaldfrelsi í miðbæ

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra og bæjarlögmanni að skoða ósk sem fram kom í öldungaráði Akureyrarbæjar um gjaldfrjáls bílastæði fyrir eldri borgara í miðbænum.

Á fundi öldungaráðs í apríl lagði Þóra Ákadóttir, fulltrúi EBAK, Félags eldri borgara á Akureyri, fram tillögu um gjaldfrjáls bílastæði í miðbænum á grundvelli þess að núverandi fyrirkomulag feli í sér mismunun þar sem stór hluti eldri borgara eigi ekki snjallsíma og þar með ekki smáforritin sem notuð eru fyrir gjaldtöku. Tillaga öldungaráðs er að bílastæði verði gjaldfrjáls og verði miðað við 75-80 ára og eldri. Þessi hópur fengi tækifæri til að merkja bíla sína þannig að engin gjaldskylda yrði á þá.

Fundargerð öldungaráðs frá 16. apríl var lögð fram til kynningar á fundi bæjarráðs síðastliðinn fimmtudag og fól bæjarráð bæjarstjóra og bæjarlögmanni að skoða málið.