Fara í efni
Fréttir

Deiluskipulag vegna Tónatraðar auglýst

Óvenju margir fylgdust með fundi bæjarstjórnar í dag þegar fjallað var um deiliskipulagstillögu vegna mögulegrar uppbyggingar við Tónatröð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag að auglýsa drög að deiliskipulagi Spítalavegar þar sem gert er ráð fyrir fjórum fjölbýlishúsum vestan megin við götuna Tónatröð í Innbænum. Hugmyndir um uppbygginguna hafa verið umdeildar síðan þær komu fyrst fram snemma árs 2021.

Sjö bæjarfulltrúar samþykktu að drögin yrðu auglýst, þrír voru á móti og einn sat hjá.

  • Fimm af sex fulltrúum meirihlutans samþykktu tillöguna – tveir af þremur fulltrúum L-lista, báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og bæjarfulltrúi Miðflokks.
  • Þrír voru á móti – bæjarfulltrúar Samfylkingar, VG og Flokks fólksins.
  • Einn bæjarfulltrúi sat hjá – Halla Björk Reynisdóttir, L-lista, formaður skipulagsráðs og bæjarráðs

„Vinnslutillaga eða drög“

Meirihluti bæjarstjórar lagði fram þessa bókun:

„Á síðasta kjörtímabili var samþykkt að heimila SS Byggi að vinna að gerð breytingar á deiliskipulagi Spítalavegar í samráði við skipulagsráð. Á þessum fundi er því ekki verið að fjalla um þá ákvörðun heldur þá tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem nú liggur fyrir. Það er mat okkar að mikilvægt sé að nýta takmarkað landsvæði bæjarins með skynsamlega þéttingu byggðar í huga og fellur svæðið við Tónatröð þar undir þar sem um er að ræða spennandi uppbyggingarsvæði miðsvæðis á Akureyri. Fyrirliggjandi tillaga að breytingu á deiliskipulagi er í samræmi við þessar áherslur og í því ljósi teljum við að kynna ætti tillöguna fyrir almenningi og öðrum hagsmunaaðilum með formlegum hætti í samræmi við ákvæði skipulagslaga, samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins. Þar sem eingöngu er um að ræða vinnslutillögu eða drög að breytingu að þá eru enn tækifæri til gera breytingar á tillögunni til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem kunna að berast.“

Hin nýju drög Yrki arkitekta um deiliskipulag við Tónatröð sem nú verða auglýst.

Fyrri drög Yrki arkitekta þar sem gert var ráð fyrir fimm fjölbýlishúsum.

Íbúar taki þátt í ferlinu

Framsóknarmennirnir tveir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson sem greiddu tillögu meirihlutans atkvæði, lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Á bæjarstjórnarfundi er til afgreiðslu hvort kynna eigi drög að breytingu á skipulagi við Tónatröð. Ýmislegt hefur verið sagt og ritað um fyrri gjörninga í þessu máli. Við getum verið sammála að betur hefði farið á því í upphafi að auglýsa eftir hugmyndum. Þá hefðum við væntanlega fjölbreyttara val og jafnræðis hefði verið betur gætt.

En staðan nú er þessi: Meirihluti fyrri bæjarstjórnar samþykkti lóðavilyrði fyrir fjölbýlishúsauppbyggingu í Tónatröð þar sem byggt yrði upp í brekkuna, að því gefnu að skipulagsbreyting yrði samþykkt. Það er okkar skilningur að lóðinni hafi ekki verið úthlutað á þessu stigi málsins og verði ekki úthlutað fyrr en að loknum skipulagsbreytingum.

Umsækjandi lóðar hefur hins vegar skilað inn sinni skipulagstillögu og það er þessarar bæjarstjórnar að samþykkja - eða ekki - hvort kynna eigi tillöguna fyrir bæjarbúum sem drög að deiliskipulagi. Samþykki bæjarstjórn þá er tillagan borin undir bæjarbúa með formlegum hætti og umsækjanda lóðar gefst frekara tækifæri til þess að kynna hugmyndir sínar. Öllum íbúum bæjarins gefst að sama skapi tækifæri til að bera fram spurningar um verkefnið og skila inn ábendingum.

Það er því ekki þar með sagt að þetta sé sú tillaga sem bæjarstjórn samþykkir á endanum og ýmsir þættir sem við bæjarfulltrúar Framsóknar viljum skoða nánar í frekari vinnu við skipulagið. Af þeirri ástæðu samþykkjum við að setja þessi drög að skipulagi í kynningu og vonum að íbúar verði duglegir að koma skoðunum sínum á framfæri og taka þátt í ferlinu með okkur.“

Óánægðar með niðurstöðuna

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar, mótmælti því að ekki væri að fjalla um ferli málsins; sagði að nú gæfist þessari bæjarstjórn  í fyrsta skipti tækifæri „til að vinda ofan af vitleysunni,“ eins og hún sagði. Hilda Jana lagði til að drög að breytingum á skipulagi svæðisins færi í ráðgefandi íbúakosningu en sú tillaga var felld.

Hilda lagði fram þessa bókun á fundinum:

„Það er miður að meirihluti bæjarstjórnar sé andsnúin því að fram fari ráðgefandi íbúakosning um jafn umdeilt skipulagsmál og um ræðir við Tónatröð. Í ljósi þess að Minjastofnun féllst ekki á flutning húss í miðju þess reits sem um ræðir, er hugmynd um uppbyggingu fjölbýlishúsa ekki lengur fýsilegur kostur og ætti frekar að horfa til lágreistari byggðar á svæðinu, sem myndi falla betur að nærliggjandi byggð. Þá er ástæða til að árétta að það lóðavilyrðri sem síðasta bæjarstjórn veitti og liggur til grundvallar málinu nú var ekki í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis.“

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, bæjarfulltrúi VG, bókaði eftirfarandi:

„Það er miður að meirihluti bæjarfulltrúa fari gegn samþykkt í núgildandi Aðalskipulagi og hunsi algjörlega varðveislugildi og vernd eldri byggðar sem leiðir af sér óafturkræfa breytingu á bæjarmyndinni.“

Svæðið eins og það lítur út í dag.