Björn Ómar keypti Hólabraut 16

Fasteignafélag í eigu Björns Ómars Sigurðarsonar hefur keypt Hólabraut 16, þar sem Vínbúð Áfengis og tóbaksverslunar ríksins (ÁTVR) var til húsa í áratugi. Húsið hefur staðið autt síðan Vínbúðin var flutt í nýtt húsnæði á Norðurtorgi í mars á þessu ári.
Björn Ómar er eigandi BB bygginga ehf. sem hyggur á mikla uppbyggingu steinsnar sunnan gömlu Vínbúðarinnar en hann segir húsið þó ekki keypt með þær framkvæmdir í huga og ekki séu áform um að rífa það eins og húsin í hans eigu sunnan Gránufélagsgötu; ýmsar hugmyndir hafi kviknað, vissulega gæti húsið við Hólabraut tengst uppbyggingu á svæðinu með einhverjum hætti þegar þar að kemur, en hugsanlega verði það leigt út í einhvern tíma.
BB byggingar eiga stóran hluta Gránufélagsgötu 4 (þar sem Herradeild JMJ er m.a. til húsa), félagið á Hólabraut 13 (þar sem Ríkisútvarpið og hár- og snyrtistofan Adell eru með starfsemi) og Hólabraut 12 (þar sem Borgarbíó var lengi). Öll þessi hús verði rifin og í nýum byggingum er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð en íbúðum á efri hæðum. Hús munu einnig rísa á bílastæðinu austan Brekkugötu 4 - 12; eða vestan Túngötu, vilji menn frekar orða það þannig! Eða, á bílastæðinu gegnt Borgarbíói.
Félag Björns Ómars á einnig Geislagötu 5, þar sem útibú Arion banka var í eina tíð og tískuverslunin Imperial er nú á jarðhæð. Það hús mun standa og gert ráð fyrir skrifstofum eða annarri atvinnustarfsemi.
- Smellið á myndina hér að neðan til að sjá frétt akureyri.net frá því í desember 2023 um fyrirhugaða uppbyggingu.
Björn Ómar segir enn unnið að undirbúningi uppbyggingar í miðbænum – á svæðinu sem kallað hefur verið Borgarbíóreitur. Verkefnið hafi verið í dvala um tíma vegna annarra verkefna og framkæmdir muni ekki hefjast næsta eina og eina hálfa árið hið minnsta.