Fara í efni
Umræðan

Biðin eftir húsnæði við hæfi

Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi. Ánægjulegt er að bæjarstjórn samþykkti samhljóða þær þrjár tillögur sem ég lagði fram í bæjarstjórn við gerð áætlunarinnar og í tengslum við rammasamning um aukið íbúðaframboð. Þær tillögur voru svo hljóðandi:

  • Bæjarstjórn Akureyrarbæjar er sammála þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Bæjarstjórn leggur áherslu á að flýta eins og kostur er endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og ganga í kjölfarið til viðræðna við ríkið og HMS um gerð samkomulags sem byggir á þeim markmiðum.

  • Akureyrarbær mun formlega óska eftir samvinnu við þau nágrannasveitarfélög sem teljast mynda sameiginlegt atvinnusvæði um gerð sameiginlegrar húsnæðisáætlunar fyrir svæðið í samræmi við 1. gr. reglugerðar um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga nr. 1248/2018

  • Bætt verði við húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar sérstök greining fyrir Hrísey og Grímsey.

Í kjölfarið tóku drög að húsnæðisáætlun heilmiklum breytingum og þær ánægjulegustu voru að nú er gert ráð fyrir því í húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar að 5% af nýju húsnæði verði félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélagsins og að hagkvæmt húsnæði á viðráðanlegu verði, verði 30% af nýju húsnæði.

Allt að 180 á biðlistum árið 2032

Þrátt fyrir þessar breytingar þá má ekki gleyma því að hjá Akureyrarbæ bíða allt að 231 einstaklingur eftir félagslegri íbúð, almennri leiguíbúð fyrir tekju- og eignarlága eða sértæku búsetuúrræði og getur biðin varað allt að fjórum árum. Samkvæmt húsnæðisáætlun er árið 2032 gert ráð fyrir að á þessum biðlistum geti verið allt að 180 einstaklingar, sem enn er allt of mikið og því mikilvægt að leita allra leiða til að gera betur. Þessar tölur eru þó settar fram með fyrirvara um að ekki eru til nákvæmar tölur á biðlistum og að í einhverjum tilfellum gætu sömu einstaklingar verið á fleiri en einum biðlista samtímis. Mikilvægt er að gerðar verði úrbætur á nákvæmni þeirra talna sem fram koma í húsnæðisáætlun, ekki síst til að auka líkur á að hún gagnist við stefnumótun sveitarfélagsins.

Gerum betur

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að skapa umhverfi fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Hingað til hefur hins vegar skort á samstöðu, metnað og sameiginlega framtíðarsýn til að bregðast við vandanum á húsnæðismarkaði af krafti og festu. Ég bind vonir við að með þeirri vinnu sem nú er verið að ráðast í verði breyting þar á.

Hilda Jana Gísladóttir er oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00

Gaza - Almenningur og stjórnvöld á Íslandi verða að ná samstöðu

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
04. júní 2024 | kl. 16:40

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Ingibjörg Isaksen skrifar
30. maí 2024 | kl. 16:16

Ég kýs Katrínu

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. maí 2024 | kl. 06:00