Fara í efni
Íþróttir

Aldís Kara valin best þriðja árið í röð

Aldís Kara Bergsdóttir og þjálfari hennar, Darja Zajcenko. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skautasamband Íslands hefur valið Aldísi Köru Bergsdóttur skautakonu ársins 2021. Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko. Þetta er í þriðja sinn í röð sem hún hlýtur nafnbótina skautakona ársins.

„Aldís Kara er verðugur fulltrúi skautaíþrótta þar sem hún sýnir ávallt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur ekki látið heimsfaraldur stöðva sig og er jafnvel enn staðfastari í sínum markmiðum en áður, en þau voru að ná lágmörkum inn á Evrópumeistaramót og heimsmeistaramót,“ segir í tilkynningu á vef Skautasambands Íslands.

„Í stuttu máli sagt vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Þetta er sögulegur árangur fyrir íslenska íþróttahreyfingu og þá að sjálfsögðu sérstaklega fyrir skautaíþróttir,“ segir þar.

„Mikil og þrotlaus vinna er á bak við þennan glæsilega árangur Aldísar Köru og hefur hún sett markið enn hærra og stefnir að því að ná lágmörkum fyrir heimsmeistaramót einnig.“

Samhliða æfingum og keppni er Aldís Kara að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í vor. „Það er greinilegt að mikill metnaður liggur að baki öllu því sem hún leggur fyrir sig,“ segir á vef Skautasambandsins.

Söguleg mót

Á vef sambandsins segir ennfremur: „Á nýju keppnistímabili keppti hún á tveimur ISU Challenger Series mótum, í september og október, með það að markmiði að ná lágmarksstigum á EM og HM sem og að reyna við lágmörk á Ólympíuleikana 2022.

Fyrra mótið var Nebelhorn Trophy í Oberstdorf, Þýskalandi. Mótið á sér langa sögu og dregur árlega að sér marga þá fremstu í íþróttinni ásamt því að dómarar og tæknisérfræðingar/-stjórnendur mæta þangað til þess að endurnýja réttindi sín hjá Alþjóða skautasambandinu (ISU). Að þessu sinni voru margir keppendur skráðir til leiks í öllum greinum þar sem að um var að ræða síðasta mótið þar sem hægt var að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum 2022. Á mótinu fékk Aldís Kara 39.92 stig fyrir stutta prógrammið og 78.17 stig, þar af 41.50 tæknistig (e.Techincal Element Score-TES), fyrir frjálsa prógrammið. Samtals 118.09 í heildarstig. Með 41.50 tæknistig náði Aldís Kara lágmörkum í frjálsu prógrammi fyrir Evrópumeistaramót. En til þess að öðlast keppnisrétt þarf að ná lágmarksstigum í bæði stuttu og frjálsu prógrammi.

Seinna mótið var Finlandia Trophy í Espoo, Finnlandi. Þar fékk Aldís Kara fyrir stutta prógrammið 45.45 stig, þar af 25.15 tæknistig. Fyrir frjálsa prógrammið fékk hún 76.66 stig sem skilar sér í 122.11 heildarstigum.

Með 25.15 tæknistig í stutta prógramminu á Finlandia Trophy og 41.50 tæknistig í frjálsu prógrammi á Nebelhorn Trophy vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum.

Til þess að öðlast keppnisrétt þarf að ná lágmarksstigum í bæði stuttu og frjálsu prógrammi á alþjóðlegu móti á lista ISU. Ekki þarf að ná lágmörkum fyrir bæði prógröm á sama móti

Lágmarks tæknistigin í stuttu prógrammi eru 23.00 stig og í frjálsu prógrammi 40.00 stig.

Aldís Kara lauk svo árinu með því að að slá eigið Íslandsmet enn og aftur á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var 19. -21. nóvember sl.. Þar hlaut hún 136.14 stig og sýndi þar með að hún er hvergi hætt sínum áformum um að fara enn lengra. Jafnframt eru þetta hæstu stig sem gefin hafa verið í Senior flokki á Íslandi.

Nýtt ár mun hefjast með þátttöku Aldísar á Evrópumeistaramótinu sem mun verða haldið í Tallin í Eistlandi í janúar. Þátttaka hennar er ekki síður mikilvæg fyrir alla íþróttina en það er í fyrsta sinn sem íslenskur skautari vinnur sér þátttökurétt á því móti.

Aldís Kara er kappsfull íþróttakona og er yngri iðkenndum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.

Hún er vel að þessum titli komin og frábær fulltrúi fyrir íþróttina.“

EM sæti tryggt; stór stund hjá Aldísi

Allt gull til Akureyrar og Aldís bætti metið