Fara í efni
Íþróttir

EM sæti tryggt; stór stund hjá Aldísi

Aldís Kara Bergsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar hefur tryggt sér rétt til þátttöku á Evrópumeistaramóti í listhlaupi á skautum, fyrst Íslendinga. EM fer fram í Tallinn í janúar.

Þetta eru sannarlega ánægjuleg tímamót hjá þessari gríðarlegu efnilegu stúlku. Aldís Kara er aðeins 18 ára en hefur verið kjörin íþróttakona Akureyrar síðustu tvö ár.

Keppni í listhlaupi er tvíþætt; annars vegar skylduæfingar (sem skautafólk kallar gjarnan „stutt prógram“), hins vegar frjálsar æfingar („langt prógram“).

Ná þarf lágmarki í hvoru tveggja til að öðlast rétt til þátttöku á EM.

Aldís bætti eigið Íslandsmet í frjálsum æfingum, og náði um leið lágmarki fyrir EM, á móti í Oberstdorf í Þýskalandi fyrir hálfum mánuði. Hún fékk þá 41.50 tæknistig og alls 78.17 stig fyrir æfingarnar, en lágmarkið fyrir EM eru 40.00 tæknistig.

Í gær keppti Aldís Kara á móti í Finnlandi og bætti þá eigið Íslandsmet í skylduæfingum; fékk 25.15 tæknistig og 45.45 stig í heildina. Lágmarkið fyrir EM eru 23.00 tæknistig.

Innilega til hamingju með áfangann, Aldís Kara!