Fara í efni
Fréttir

20.000 króna sekt á dag vegna umgengni á lóð

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra samþykkti á fundi um miðjan desember að leggja dagsektir að upphæð 20 þúsund krónur á dag frá og með 2. janúar á lóðarhafa að Hamragerði 15 á Akureyri þar sem ekki hafi verið brugðist við fyrirmælum og áminningu um tiltekt á lóðinni.

Í dag voru á þriðja tug bifreiða eða bílhræja á lóðinni eins og sjá má á myndinni.

Nefndin hafði áður samþykkt þann 15. nóvember að áminna lóðarhafa þar sem ekki hafði verið brugðist við fyrirmælum og bætt úr umgengni á lóðinni. Jafnframt fékk lóðarhafi þá lokafrest til 10. desember til að ljúka tiltekt. „Heilbrigðisnefnd harmar það að tiltekt á lóðinni skuli enn ekki vera lokið, þrátt fyrir að lóðarhafa hafi nú þegar verið veitt áminning sem er vægasta þvingunarúrræði skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að mati nefndarinnar hafa ítrekuð tilmæli og nú síðast væg þvingunarúrræði ekki skilað tilætluðum árangri og því nauðsynlegt að ganga harðar fram í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur,“ segir meðal annars í fundargerð heilbrigðisnefndarinnar.