Fara í efni
Menning

Þegar gleðin ríkir í hverju húsi í kring

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

24. desember – Jólin 1879 í Benediktsbæ

Kristinn Kristinsson rekur bernskuminningar úr Eyjafirði og Akureyri í bókarkafla í Menn og Minjar VIII sem kom út árið 1956. Kristinn var sonur Rósu Sigurðardóttur, vinnukonu og Kristins Jónssonar, vegabótarstjóra. Rósa giftist síðar Tómasi Davíðssyni, barnakennara og ólst Kristinn upp hjá þeim frá fimm ára aldri þar til hann var á ellefta ári ásamt þremur hálfsystkinum sínum.

Í fyrstu leigðu þau lítið loftkríli í litlum torfbæ á baklóð Friðbjarnarhúss, nú Aðalstræti 48. Jólin 1879 bjuggu þau uppi á lofti í Benediktsbæ, torfhúsi sem var á Akureyrinni norðan við Jensensbauk, þar sem Hótel Akureyri stóð síðar. Kristinn minnist sérstaklega jólanna 1879 sem voru þau síðustu sem fjölskyldan áttu saman því um vorið 1880 tóku Rósa og Tómas sig upp og fluttu að nýbýlinu Grænhóli í Kræklingahlíðinni. Kristinn, þá á ellefta ári fylgdi þeim ekki þangað. Þess í stað fékk hann að halda til á loftinu í Benediktsbæ. Þaðan fór Kristinn milli bæja þar til að hann flutti vestur um haf 1889.

Síðustu jólunum á Akureyri hjá móður sinni og fósturföður lýsir Kristinn svo:

„Það man ég, að síðasta veturinn, sem ég var hjá þeim, var svo mikil þröng í búi, að móðir mín gat ekki veitt okkur neina tilbreytingu um jólin. Hún átti svolítinn rúghnefa, sem hún sendi mig með til að mala, og reyndi ég að mala það eins fínt og hægt var, til þess að hún gæti sigtað það í lummur. Þessa jólanótt sá ég hana í fyrsta skipti fella tár yfir eymd okkar, enda mun hún hafa sorfið að meira en ég tók eftir.

Þetta voru síðustu jólin, sem ég var með móður minni. Einn lítill olíulampi lýsti upp herbergið okkar eins og vant var. Flestir munu geta gert sér í hugarlund, hvað það er að hafa þrjú börn hjá sér og geta ekki glatt þau neitt um jólin, þegar gleðin ríkir í hverju húsi í kring. Þetta mun vera nokkuð algengt í einhverri mynd. En oft eru þá jólaenglar á ferð, sem líta eftir því, að gleðin nái til barnanna, og svo reyndist það hjá okkur í þetta sinn.

Er á kvöldið leið, birtist jólaengillinn minn. Hann hét Ólafur Ólafsson og var prentari við blaðið Norðanfara. Hann var í ætt við Tómas, en þó fjarskyldur. Hann kom oft til okkar á kvöldin, þegar vinna var úti í prentsmiðjunni. Hann var ræðinn maður, skemmtilegur og fróður og mesta prúðmenni, með fríðustu mönnum, sem ég hefi séð, svipurinn bjartur og hreinn, en veiklulegur í útliti. Ólafur er einn þeirra manna, sem ég mun ætíð minnast með viðkvæmni og þakklæti.

Þetta áminnsta jólakvöld, þegar allir nutu heimilisánægju í meira eða minna mæli, var bæði dimmt og tilbreytingarlaust hjá okkur. Ég átti mér ofurlítinn krók hjá ofninum, sem var rétt mátulegur fyrir mig. Þar var einna notalegasti staðurinn á vetrum, þegar eitthvað var til að láta í ofninn. Þar var ævinlega skuggsýnt og gott að láta sig dreyma þar fagra drauma. Þetta kvöld sat ég í króknum mínum og lét mig dreyma um sönn jól. Ég sagði aldrei neinum frá hugsunum mínum, var of feiminn til þess. Ég hafði ekki heldur við neinn að kvarta, þó að ég eignaðist ekkert kerti. Þarna sat ég í króknum, og seinast sofnaði ég þar út frá hugsunum mínum.

Ég veit ekki, hve lengi ég hefi blundað, en allt í einu hrökk ég upp við það, að klappað var á loftshurðina hjá okkur. Dyrnar voru opnaðar og Ólafur kom inn með einhverja grænmálaða grind í hendinni, sem hann fór varlega með. Þetta var heimagert jólatré, sem tók sex kerti í einu. Þetta var í fyrsta sinn, sem ég sá jólatré. Hann setti tréð á borðið við rúmið mitt og festi kerti á það. Síðan kveikti hann á öllum kertunum. Hvílíkur munur! Áður hafði ég blundað í dimmu skotinu, nú var þessi góði maður kominn sem engill af himnum og kertaljósin tindruðu svo skært, að ég fékk nær því ofbirtu í augun, og ég hefi aldrei séð bjartari ljós. Þessi ljós munu aldrei slokkna í huga mínum, heldur ljóma um minningu þess manns, sem færði mér þau.

En Ólafur gerði fleira fyrir mig þetta kvöld. Þegar hann hafði tendrað jólaljósin, opnaði hann böggul, sem hann hafði meðferðis, og lagði Nýjatestamenti í skínandi fallegu bandi hjá jólatrénu, sem hann gaf mér, ásamt því fegursta bókamerki, sem ég hefi séð. …

Nú var allt myrkur horfið úr huga mínum. Ég sat með Nýjatestamentið og skoðaði myndablöð, sem Ólafur gaf hálfsystkinum mínum, en þau voru svo ung, að þau skildu ekki, hvað fram fór þetta kvöld.

Stuttu eftir að ljósin voru kveikt, kom sending til okkar frá veitingahúsinu [Jensensbauk] Í henni var alls konar brauð og góðgæti, svo að nú skorti ekkert á. Jólin voru komin alla leið inn í dimma krókinn minn, og það sem mest var um vert, bak við gjafirnar var hreinn kærleikur þessa fólks. … Jólin byrjuðu með deyfð og dimmu, en enduðu með gleði í huga mínum, og það mun alltaf verða bjart yfir minningum mínum um þetta fólk.“

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu hefur birst á Akureyri.net á hverjum degi frá mánaðamótum.