Fara í efni
Menning

Sólgos - Ungmennabók sem öll ættu að lesa

AF BÓKUM – 54

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir_ _ _

Ég hef alltaf verið hrifin af dystópíum og sögum þar sem siðmenningin eins og við þekkjum hana líður undir lok. Það eru bækur eins og Eyland eftir Sigríði Hagalín, Vegurinn eftir Cromac McCarthy, Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttir og Stúlkan með náðargjafirnar eftir M. R. Carey, svo einhverjar séu nefndar.

Ég var því heldur betur spennt þegar ég sá að von væri á íslenskri ungmenna dystópíu.

Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur fjallar um það þegar svo öflugt sólgos verður að öll raftæki, fjarskiptabúnaður og tækni sem við treystum á í daglegu lífi okkar, bræðir úr sér. Engar flugvélar eða skipakomur til landsins, engin leið að afla sér upplýsinga um hvað er að gerast eða eiga samskipti nema í eigin persónu.

Sagan er sögð frá sjónarhóli Unnar, stelpu í 10. bekk sem er að gera sig klára fyrir ball í skólanum þegar veröldin breytist. Fljótlega áttar fólk sig á því að þetta er ekki tímabundið ástand og landið er í algjörri upplausn. Einhverjir reyna af veikum mætti að halda samfélaginu gangandi í fyrri mynd en hjá flestum virðist frumskógarlögmál taka yfir – framundan er kaldur vetur og auðlindirnar eru takmarkaðar.

Allt í einu snúast dagar Unnar um það að standa á bryggjunni í nístingskulda og veiða fisk eða þræða tómar verslanir í leit að einhverju nothæfu. Pabbi hennar er einn af þeim sem trúir því að einungis hinir hæfustu lifi af og svífst einskis til þess að tryggja öryggi fjölskyldu sinnar.

Sagan er listilega vel skrifuð og vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Þó bókin sé vissulega skrifuð með ungmenni í huga á hún ekki síður erindi við fullorðið fólk og er bæði stutt og fljótlesin. Ég mæli hiklaust með Sólgosi fyrir öll yfir 12 ára aldri.