Fara í efni
Menning

Sjáumst í ágúst – bók sem hreyfir við manni

AF BÓKUM – 26

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _

Sjáumst í ágúst eftir Gabriel García Márquez
 
Bókin Sjáumst í ágúst kom út árið 2024, tíu árum eftir andlát höfundarins. Hann hafði ekki klárað að skrifa bókina þegar hann lést og óskaði sérstaklega eftir því að hún yrði ekki gefin út, en synir hans voru á öðru máli. Þeim fannst textinn hafa marga góða kosti og ákváðu að setja lestraránægju væntanlegra lesenda ofar öllu því sem mælti gegn útgáfu bókarinnar.
Sagan fjallar um miðaldra konu að nafni Ana Magdalena Bach. Hún er vel menntuð, tveggja barna móðir og virðist lifa hamingjusömu lífi með eiginmanni sínum til 27 ára. En þegar líður á söguna skynjar maður ákveðna vanlíðan og að hún upplifi að eitthvað vanti í líf hennar. Ana ferðast árlega til eyjar við Karíbahafsströndina til að leggja blóm á leiði móður sinnar. Hún gistir eina nótt á eyjunni og á þá í stuttu ástarsambandi við ókunnugan mann.
Sagan virðist á yfirborðinu frekar einföld, hún er hvorki löng né flókin, en ef maður rýnir í hana og les það sem ekki er skrifað, þá hreyfir hún við manni. Hún fjallar um djúpar mannlegar tilfinningar sem erfitt er að koma í orð og leit aðalsögupersónunnar að sjálfri sér, því hún virðist týnd í eigin lífi án þess að gera sér almennilega grein fyrir því. Það er ákveðin sorg í sögunni, Ana virðist hafa verið svolítið ,,föst” í hefðbundnu hlutverki og hefði hugsanlega kosið sér annars konar líf. Tíminn sem hún dvelur á eyjunni gerir henni kleift að íhuga líf sitt án utanaðkomandi áreitis og gefur henni hugrekki til hlusta á eigin langanir og þrár.
Bókin sat í mér eftir lesturinn og mér fannst hún áhugaverðari en ég bjóst við í byrjun. Hún sýndi mér að saga þarf ekki að vera hröð og spennandi til að skilja eftir áhrifaríka upplifun. Með innra ferðalagi sögupersónunnar, fékk hún mig til að hugsa um eigið frelsi og minnti mig á að það er aldrei of seint að breyta til, hlusta á eigin rödd og elta draumana.