Nonni fitnaði lítið en safnaði fyrir sumargjöf
SÖFNIN OKKAR – XXIV
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður Yngismeyjardagur, markar upphaf Hörpu í gamla norræna tímatalinu. Dagurinn var einn mesti hátíðardagur landsmanna og algengara að gefa börnum og fullorðnum gjafir í tilefni sumarkomunnar heldur en um jól.
Einn veturinn á Espihóli, þar sem Nonni var í vist, tókst honum að nurla saman nokkrum krónum til að kaupa sumargjöf fyrir mömmu sína og pabba. Þannig var að einn vinnumaðurinn á Espihóli var sísvangur. Nonni sá í þessu óvænt tækifæri. Á hverjum degi fékk hann kæfubita til að borða. Þessa bita bauð hann vinnumanninum að kaupa yfir veturinn. Nonni fitnaði lítið þennan vetur en í handraðann söfnuðust krónur.
Síðla vetrar lá leið Nonna heim til Akureyrar í litla svartbikaða húsið í Fjörunni. Hann kom við hjá kaupmanni til að festa kaup á sumargjöf fyrir foreldra sína. Kannski hafði Nonni í fyrri heimsókn til kaupmanns fest augu á því sem hann vildi kaupa, ef til vill var þetta tilviljun. Hvernig sem á því stóð keypti hann dýrindis par af kaffibollum með undirskálum fyrir foreldra sína.
Þessa sömu bolla dró Sigríður móðir Nonna fram þegar þau kvöddust í síðasta skipti í stofunni í Nonnahúsi. Með kaffinu bauð hún allt það besta sem hún átti í búrinu. Í þetta sinn var lítið drukkið eða borðað. Tilefnið bauð ekki upp á gleði. Nokkrum árum síðar kvaddi Sigríður sjálf Akureyri og Íslandsstrendur og hélt til Kanada í leit að betra lífi. Allt eins er víst að bollarnir góðu hafi fylgt henni í ferðakoffortinu og hún yljað sér við minningarnar um drenginn sinn sem var hinu megin Atlantshafsins þegar hún handfjatlaði sumargjöfina úr Nonnahúsi.