Fara í efni
Menning

Mikil gleðistund í Grímsey

Séra Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur Miðgarðakirkju ávarpar samkomugesti í kirkjunni í gær. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Grímsey skartaði sínu fegursta í gær þegar heimamenn og fjöldi gesta komu saman í nýrri Miðgarðakirkju, sem nú er fokheld. Þess var minnst að ár var frá því að Miðgarðakirkja, sem reist var 1867, brann til grunna ásamt öllum kirkjumunum og því fagnað að ný kirkja er nú risin.

„Samkoman í kirkjunni var einstaklega hugljúf en með léttu yfirbragði. Sr. Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur Miðgarðakirkju lét ekki sitt eftir liggja og Friðrik Ómar Hjörleifsson tónlistarmaður var fyrstur til að taka lagið í hinni nýju kirkju. Hún er auk helgihalds hugsuð sem tónlistar- og menningarhús,“ segir í tilkynningu frá verkefnisstjóra kirkjubygginarinnar.

Frá vinstri, Arna Björg Bjarnadóttir verkefnisstjóri, Inga Lóa Guðjónsdóttir og Hilmar Páll Jóhannesson frá Loftkastalanum, Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Alfreð Garðarsson sóknarnefndarformaður. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Friðrik Ómar tónlistarmaður og séra Pálmi Matthíasson, fyrrverandi sóknarprestur Grímseyinga. Ljósmynd: Yulai Danieli

Milljón frá söfnuði Bústaðakirkju

Séra Gísli Gunnarsson, nýkjörinn vígslubiskup að Hólum í Hjaltadal, minntist m.a þess að nú eru 800 ár frá því að Guðmundur góði Arason Hólabiskup kom til Grímseyjar á flótta undan Sturlungum. Í þeirri ferð vígði Guðmundur m.a stuðlaberg sem notað verður sem altari kirkjunnar. Þá fluttu fyrrverandi sóknarprestar, séra Pálmi Matthíasson og séra Magnús Gunnarsson, hugvekjandi orð og þökkuðu liðna tíma. Jafnframt færði Pálmi Miðgarðakirkju eina milljón króna frá söfnuði Bústaðakirkju. Þá lýsti Hjörleifur Stefánsson, arkitekt kirkjunnar, því hvernig hönnun hennar skírskotar til einstakrar sögu og náttúru Grímseyjar. Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar og Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri kirkjubyggingar komu jafnframt á framfæri þakklæti til allra þeirra, sem stutt hafa við kirkjubygginguna með einum eða öðrum hætti.

„Smíði hinnar nýju kirkju hefur gengið vel þrátt fyrir tafir vegna slæmrar veðráttu í sumar. Á móti kemur að vel hefur viðrað í september og verkinu þá miðað afar vel áfram. Á næstu vikum mun Loftkastalinn, sem sér um smíði kirkjunnar, ljúka við að klæða hana að utan og leggja steinskífur úr stuðlabergi á þakið. Það er mál manna að um einstaklega vandaða smíði sé að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Séra Gísli Gunnarsson, nýkjörinn vígslubiskup á Hólum, ávarpar samkomuna. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Sóknarnefnd Miðgarðakirkju mun á næstunni taka ákvörðun mun hvenær haldið verður áfram með framkvæmdir en framvinda þeirra er háð þeim fjármunum sem safnast til verksins. Vonir standa til að í vetur takist að innrétta kirkjuna og vígja næsta sumar. Söfnun fyrir nýrri Miðgarðakirkju heldur því áfram og margir leggja þar hönd á plóg. Á morgun verða til dæmis söfnunartónleikar í Hallgrímskirkju.

Að athöfninni lokinni í gær bauð kvenfélagið Baugur, sem í sitja allar konur í eynni, til veislukaffis í félagsheimilinu Múla. Auk þess buðu forsvarsmenn hinnar nýju Grímseyjarlestar til útsýnis- og skoðunarferðar um eyjuna.

Hægt er að fylgjast með söfnun til Miðgarðakirkju á styrktarsíðu hennar hér 

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju:

  • Reikningsnúmer: 565-04-250731
  • Kennitala: 460269-2539

Ljósmynd: Anna María Sigvaldadóttir

Ljósmynd: Unnur Ingólfsdóttir

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir