Fara í efni
Menning

HNE hefur farið fram á úrbótaáætlun

Legið hefur fyrir í einhvern tíma að rotþró við Hótel Kjarnalund annaði illa starfsemi hótelsins og því hefur þurft að tæma hana oftar en gengur og gerist. Ekki hefur þó orðið vart við að skólp frá rotþrónni bærist út í umhverfið umhverfis hana. Aftur á móti hefur komið í ljós að siturlögn er á öðrum stað en áður var talið og greinilegt að hún þjónar ekki hlutverki sínu þar sem sírennsli er út úr lögninni við enda hennar.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE) hefur farið fram á úrbótaáætlun frá rekstraraðila og að rotþróin verði tæmd, ásamt áherslu á að rennsli frá henni verði stöðvað þar til gengið hefur verið frá nothæfum fráveitumannvirkjum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari Leifs Þorkelssonar, heilbrigðisfulltrúa og framkvæmdastjóra HNE, vegna fréttar og greinar á Akureyri.net í gær um skólp frá Hótel Kjarnalundi.


Þessi mynd sýnir afstöðuna milli Hótels Kjarnalundar og bæjarins Brunnár. Rauða svæðið sýnir hvar Brunnáin liðast í skóginum milli Kjarnabrautar og Eyjafjarðarbrautar vestari. Skjáskot af map.is/akureyri.

Akureyri.net birti í gær grein Elín Kjartansdóttur, sem ólst upp á Brunná við afleggjarann upp í Kjarnaskóg, þar sem hún lýsir því hvernig óhreinsað skólp úr klóaki frá Hótel Kjarnalundi renni óáreitt út í brekku í Brunnárgili og í Brunnána. Þar kemur fram að ábúandi á Brunná hafi sent kvörtun til HNE í ágúst í fyrra vegna fnyks sem fannst á svæðinu við ákveðin veðurskilyrði. 

Siturlögn þjónar ekki tilgangi sínum

Svar Leifs Þorkelssonar heilbrigðisfulltrúa við fyrirspurn Akureyri.net um málið er eftirfarandi:

„Við hjá HNE könnumst við kvartanir um lykt frá rotþró við hótel Kjarnalund. Það hefur legið fyrir í einhvern tíma að rotþróin annaði illa starfsemi hótelsins og því hefur þurft að tæma hana oftar en gengur og gerist. Hins vegar hefur aldrei orðið vart við að skólp frá rotþrónni bærist út í umhverfið umhverfis hana.

Síðan gerist það núna eftir miðjan ágúst að aðilar tengdir Brunná, sem þekkja vel til svæðisins þarna í kring, uppgötva skólpmengun í skógarjaðri sunnan við tún í landi Brunnár. Nú hefur komið í ljós að siturlögn aftan við rotþróna er staðsett mun austar en áður var talið, neðan við veginn sunnan við tún í landi Brunnár.

Greinilegt er að siturlögnin þjónar ekki hlutverki sínu, þar sem sírennsli er út úr lögninni við enda hennar. Í siturlagnir á að renna hreinsað skólpvatn úr aftasta hólfi rotþróarinnar, vatnið að seytla niður í gegn um malarbeð m.a. í þeim tilgangi að fækka örverum í skólpvatninu.

Öll ummerki benda til þess og óhreinsað skólp hafi flætt um siturlögnina og út í umhverfið hugsanlega vegna þess að rotróin hefur ekki verið tæmd nægilega oft.

Eftir að ljóst var hvers kyns var hefur Heilbrigðiseftirlitið farið fram á úrbótaáætlun frá rekstraraðila og jafnframt farið fram á rotþróin verði tæmd. Þá hefur verið lögð áhersla á að rennsli frá rotþrónni verði stöðvað og hún nýtt sem safntankur þar til gengið hefur verið frá nothæfum fráveitumannvirkjum, enda afar mikilvægt að koma í veg fyrir frekari mengun þarna á svæðinu.“
_ _ _

KRÖFUR UM RÓTÞRÆR
Í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um rotþrær og siturlagnir segir meðal annars: 

„Gerð er krafa um tveggja þrepa hreinsun á skólpi frá hýbýlum manna. Tveggja þrepa hreinsun felst í rotþró (fyrsta þrep) og siturlögn (annað þrep) sem beisla úrgangsefni í skólpinu og stuðla að niðurbroti á mengunarefnum áður en þau berast út í umhverfið. Rotþró er einfaldur búnaður til að grófhreinsa skólpið áður en það fer í siturlögn. Siturlögn er nauðsynleg til að ljúka hreinsunarferlinu þar sem í skólpvatni úr rotþró eru milljónir örvera sem geta verið skaðlegar heilsu manna og dýra.“

Einnig: „Gerð er krafa um að allt frárennsli frá hýbýlum sé tengt fráveitu, annaðhvort fráveitukerfi á vegum sveitarfélags, rotþróarkerfi á vegum húsráðanda eða sambærilegum búnaði sem samþykktur er af viðkomandi heilbrigðiseftirliti.“

HVAÐ ER SITURLÖGN?
Í leiðbeiningum UST um rotþrær og sigurlagnir segir meðal annars: „Aldrei má leiða skólpvatn beint úr rotþró út í umhverfið. Skólpvatn úr rotþró á að leiða í siturlögn.“ (Sjá mynd). 

Siturlögn er fráveiturör með götum á rörbotni sem ætlað er að taka við skólpvatni frá rotþró. Lögnin er götuð á botni eftir ákveðnum reglum, færri göt næst rotþrónni, en fleiri þegar lengra dregur. Siturlögnin er lögð efst í malarbeð, en undir því þarf að vera lekt jarðvegslag, hálfur til einn metri að þykkt. Loftræsta þarf siturlögnina og koma henni þannig fyrir að hvorki hún né malarbeiðið frjósi á meðan á notkun stendur. 

Dæmi um frágang á rotþró og skiptibrunni fyrir samhliða siturlagnir. Mynd úr leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um rotþrær og siturlagnir.