Fara í efni
Menning

Friðun Eyjafjarðar ekki í nýju frumvarpi

Ákvæði um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi er ekki í drögum að frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um lagareldi sem er nú í samráðsgátt. Opið er fyrir umsagnir til miðnættis í kvöld, 26. janúar. 

Friðun Eyjafjarðar fyrir lagareldi kom fyrst fram í frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í árslok 2023. Þar var einnig lagt til að Öxarfjörður yrði einnig friðaður að þessu leyti.

Eftirmaður Svandísar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, kynnti frumvarp að lögum um lagareldi í maí 2024, þar sem einnig var lagt til að Eyjafjörður yrði friðaður og raunir fleiri svæðum bætt við. Frumvarpið var hins vegar ekki lagt fram vegna ágreinings innan ríkisstjórnarflokkana.

Harpa Barkardóttir, stjórnarkona í SUNN, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, segir í samtali við akureyri.net, að það sé margt í nýja frumvarpinu sem náttúruverndin setur út á. 615 umsagnir hafa borist í samráðsgátt, og bróðurparturinn er frá aðilum sem hafa áhyggjur af náttúrunni og áhrifa sjókvíaeldis á villta íslenska fiskistofna.

Það eru því mikil vonbrigði fyrir okkur, að sjá að öll friðunarákvæði eru á bak og burt í frumvarpi til lagareldis nýrrar ríkisstjórnar

Friðunarákvæði byggð á faglegu mati

„Á sínum tíma fögnuðum við í SUNN því, að sjá friðunarákvæðin í frumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ segir Harpa. „Þau voru byggð á faglegu mati frá Hafrannsóknarstofnun sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið óskaði eftir árið 2020, þegar Kristján Þór Júlíusson var ráðherra. Þar stendur, meðal annars að Hafrannsóknastofnun telji tilefni til þess að banna fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði. Ástæður þess eru staða villtra stofna laxfiska, þá sérstaklega bleikju og hugsanleg neikvæð vistfræðileg áhrif á lífríki fjarðarins,“ segir Harpa.

„Hafrannsóknarstofnun gerði umrætt mat eftir áskorun frá sveitarfélögunum við Eyjafjörð, öllum nema Eyjafjarðarsveitar og Fjallabyggðar. Könnun sem gerð var haustið 2024 á meðal íbúa við Eyjafjörð sýndi að 60-70% hafa neikvæða eða mjög neikvæða afstöðu gegn sjókvíaeldi,“ segir Harpa Barkardóttir og bætir við: „Það eru því mikil vonbrigði fyrir okkur, að sjá að öll friðunarákvæði eru á bak og burt í frumvarpi til lagareldis nýrrar ríkisstjórnar.“

Fleiri varnaglar

„Auk þess vil ég nefna að náttúruverndin setur varnagla við fleiri atriði í nýja frumvarpinu, til dæmis það að ætla að koma á kvótakerfi í formi laxahluta, sem verður seldur á opnum markaði. Það gerir ríkið í raun skaðabótaskylt ef dregið er í land með rekstrarleyfi til dæmis og því til þess fallið að festa starfsemi sjókvíaeldis rækilega í sessi á Íslandi. Það gefur til kynna að frumvarpið er skrifað fyrir iðnaðinn og atvinnugreinina, ekki það sem þjóðin kallar eftir eða því síður fyrir náttúruna. Við höfum líka skuldbundið okkur til þess að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og hafsvæði, og það er ekki verið að gera hérna.“

  • Hér er nýja frumvarpið til skoðunar í Samráðsgátt, og opið er fyrir umsagnir til miðnættis í kvöld, 26. janúar.
  • Hér má skoða eldri drög að frumvarpi til lagareldis, sem vísað er til í þessari frétt, 7. grein fjallar um friðun svæða.

Harpa er í stjórn SUNN, sem hafa talað fyrir verndun Eyjafjarðar gegn sjókvíaeldi um þónokkurt skeið, en umræðan hefur reglulega komið upp undanfarin ár.