Fara í efni
Mannlíf

„Þú syngur eins og Guð; eins og Óðinn“

Birkir Blær Óðinsson og þáttarstjórnandinn Pär Lernström á sviðinu í Stokkhólmi í síðustu viku. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Birkir Blær Óðinsson er kominn í fjögurra manna úrslit sænsku Idol söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV 4, eins og fram kom á Akureyri.net.  

„Þetta var ótrúlega fallega sungið eins og venjulega,” sagði einn dómaranna eftir að Birkir flutti James Arthur lagið Finally í kvöld.

„Ég segi þetta á ensku fyrir Íslendingana,” bætti dómarinn við: Ferðamenn, ekki láta hjá líða að sjá Globe, stóru hvítu bygginguna. Ég myndi fara og skoða hana.

Lokakeppni sænsku Idol fer fram í Globen um miðjan desember og dómararnir hafa ekki farið leynt með þá skoðun að Birkir Blær eigi tvímælalaust að komast í tveggja manna úrslit.

Allir stoltir

Birkir tileinkaði foreldrum sínum og stjúpforeldrum lag kvöldsins. „Mömmur þínar og pabbar eru stolt af þér. Við [dómararnir] erum stolt af þér, Ísland er stolt af þér, Svíþjóð er stolt af þér. Nú er tími til kominn að þú sért stoltur af þér sjálfur! Þú verður að vera í úrslitunum; þú bara verður!“ sagði næsti dómari.

Sá þriðji var ekki síður ánægður en hinir: „Birkir, það er til lag sem heitir Mig verkjar, mig verkjar. Veistu hvað mig mun verkja mikið í mjóbakinu þegar ég læt húðflúra Birkir í Globen 2021 á mig? Gerirðu þér grein fyrir því hvað þú hefur gert mér?!“

Birkir talaði um félagsfælni og þunglyndi í þættinum og einn dómaranna sagðist geta samsvarað sig því sem hann Íslendingurinn ungi rædd um. „Það virkar kannski skrýtið þar sem ég er svona opinn. En þetta, að vera eins og áhorfandi að öllu sem gerist og finnast maður ekki passa neins staðar. Þú sagðir ótrúlega sterkt frá þeirri reynslu,“ sagði dómarinn og bætti svo við: „En þú syngur eins og Guð; eins og Óðinn.“

Óðinn er æðstur guða í norrænni goðafræði, sem dómarinn vísaði að gamni sínu til, en lék sér í leiðinni að föðurnafni söngvarans; Jón Óðinn Waage, faðir hans, var í salnum eins og jafnan á föstudagskvöldum síðan keppnin hófst. 

Birkir Blær kominn í undanúrslit