Fara í efni
Mannlíf

Þór/KA áfram í bikar eftir sigur á Tindastóli

Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði stórglæsilegt mark gegn Tindastóli á Þórsvellinum í fyrrasumar. Í dag skoraði hún einnig fallegt mark, seinna markið í 2-1 sigri á Tindastóli í bikarkeppninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA tryggði sér í dag sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í knattspyrnu með 2-1 sigri á liði Tindastóls á Dalvíkurvelli í hádeginu í dag.

Tindastóll þurfti að leita á náðir Dalvíkinga til að spila þennan heimaleik, eins og áður hefur komið fram, vegna skemmda á Sauðárkróksvelli. Þór/KA lék undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og sóttu okkar konur án afláts, en Tindastóll skoraði þó fyrsta markið. Eftir mistök í útspili frá marki Þórs/KA fékk Jordyn Rhodes boltann fyrir miðju marki, lék á varnarmann og skoraði.

Það liðu þó ekki nema fimm mínútur þar til Þór/KA hafði jafnað leikinn. Karen María Sigurgeirsdóttir fékk þá sendingu frá Söndru Maríu Jessen inn í vítateig hægra megin, eftir innkast og vel útfært samspil, og afgreiddi boltann fallega í markið. Rétt um tíu mínútum síðar, á lokamínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik kom fallega útfærð sókn hjá Þór/KA þar sem Karen María átti sendingu inn fyrir vörnina vinstra megin, Sandra María tók við boltanum, lék að markinu og átti svo yfirvegaða sendingu þvert yfir markteiginn á Huldu Ósk Jónsdóttur. Hún afgreiddi boltann snyrtilega í fjærhornið, með vinstri, vel að merkja.

Mörkin tvö undir lok fyrri hálfleiks dugðu Þór/KA til sigurs því ekkert var skorað í seinni hálfleiknum. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki ákjósanlegar, kaldur norðangarri og næstum slydda á köflum.

Með sigrinum varð Þór/KA fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum. Þegar þetta er skrifað hafa Grindavík og Keflavík einnig tryggt sér sæti, en fimm leikir fara fram á morgun. Dregið verður í átta liða úrslitin þriðjudaginn 21. maí, en leikirnir fara fram 11. og 12. júní.