Fara í efni
Mannlíf

Fjöldi leikja í boði í aðdraganda jóla

Það verður nóg um að vera á íþróttasviðinu þegar líður á vikuna, Akureyrarlið í eldlínunni daglega frá miðvikudegi fram á sunnudag. Heimaleikir næstu daga eru í handbolta, körfubolta, íshokkí og blaki og svo er fótboltinn byrjaður að rúlla í Kjarnafæðimótinu, æfingamóti sem Knattspyrnudómarafélag Norðurlands stendur fyrir á hverju ári. 

Akureyri.net mun ekki fjalla sérstaklega um hvern leik í Kjarnafæðimótinu heldur láta nægja að hafa þá með á listanum í íþróttavikunni á mánudögum. Rétt er að hafa í huga að nokkuð algengt er að leiktímar og leikdagar í mótinu breytist með stuttum fyrirvara, en upplýsingar um mótið má finna á kdn.is og á Facebook-síðu KDN.

MÁNUDAGUR 8. DESEMBER - fótbolti

Keppni hófst í B-deild Kjarnafæðimótsins um liðna helgi þegar Höttur vann Hamrana 5-0 og Þór3 og KA4 gerðu 2-2 jafntefli, en þessir lið eru í B-riðlinum. Keppni í A-riðlinum hefst í dag með viðureign KA3 og Þórs4.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, B-deild karla, A-riðill
    Greifavöllur kl. 20
    KA3 - Þór4

Í A-riðli eru KA3, KF, Tindastóll og Þór4.

MIÐVIKUDAGUR 10. DESEMBER - handbolti

Þórsarar hafa verið í basli í Olísdeild karla í handbolta og gengið treglega að safna stigum. Þeir eru nú í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig eftir 13 umferðir. Næsta verkefni er verðugt, heimsókn að Hlíðarenda.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    N1 höllin að Hlíðarenda kl. 18:30
    Valur - Þór

Þórsarar voru reyndar afar nálægt því að taka stig af Valsmönnum í fyrri leik liðanna sem fram fór á Akureyri í september, en lokatölur urðu 27-28. Valur er í 2. sæti deildarinnar, jafnir toppliði Hauka með 20 stig. Valur vann FH á útivelli í síðustu umferð, 34-29, en Þórsarar fengu skell á heimavelli, 20-34 tap á móti Fram.

FIMMTUDAGUR 11. DESEMBER - handbolti

KA kemur í humátt á eftir toppliðum Olísdeildar karla í handknattleik, situr í 4. sætinu með 16 stig að loknum 13 umerðum. KA tekur á móti Aftureldingu á fimmtudag, en Mosfellingar sitja í 3. sætinu með þremur stigum meira en KA. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Afturelding

KA tapaði fyrir Haukum á útivelli í 13. umferðinni, 38-42, en Afturelding vann sjö marka sigur á HK, 40-33. Afturelding vann KA í fyrri leik liðanna í deildinni sem fram fór í Mosfellsbæ í september með níu marka mun, 36-27.

FÖSTUDAGUR 12. DESEMBER - körfubolti, fótbolti

Karlalið Þórs í körfuknattleik hefur ekki riðið feitum hesti í fyrri hluta deildarinnar í vetur. Á föstudag er komið að síðasta leik liðsins í fyrri umferð mótsins þegar Þórsarar taka á móti Fylki, öðru tveggja liða sem eru fyrir neðan Þór í töflunni. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Fylkir

Þór er í 10. sæti deildarinnar, hefur unnið tvo leiki af tíu, en Fylkir er í 11. og næstneðsta sætinu með einn sigur.

- - -

Þór og Magni mætast í A-deild karla í Kjarnafæðimótinu í knattspyrnu á föstudag. Þetta er fyrsti leikur Magna í mótinu, en Þór hóf mótið um liðna helgi og mátti þola 1-2 tap fyrir KA2.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, A-deild, B-riðill karla
    Boginn kl. 20
    Magni - Þór

LAUGARDAGUR 13. DESEMBER - blak, fótbolti, íshokkí

Um komandi helgi verður boðið upp á tvo toppslagi í blaki kvenna þegar KA tekur á móti HK, bæði á laugardag og sunnudag. 

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 15
    KA - HK

KA er í efsta sæti deildarinnar með 28 stig eftir tíu leiki. Liðið hefur unnið alla sína leiki og aðeins tapað sjö hrinum og aðeins tveir af sigrunum tíu voru 3-2 sigrar í hrinum talið. HK er þremur stigum á eftir KA og hefur spilað einum leik minna. HK hefur unnið átta leiki og tapað einum, gegn Völsungi á Húsavík.

- - -

Keppni í A-riðli A-deildar karla í Kjarnafæðimótinu hefst á laugardag þegar KA tekur á móti Dalvíkingum. 

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, A-deild, A-riðill karla
    Boginn kl. 15
    KA - Dalvík

- - -

Á laugardag verður boðið upp á toppslag í Toppdeild karla í íshokkí þegar SA Víkingar taka á móti liði Skautafélags Reykjavíkur. Það er gjarnan mikill hasar í leikjum þessara liða enda berjast þau um Íslandsmeistaratitilinn ár eftir ár. Lið SA er með 12 stig eftir sex leiki, en SR er með níu stig eftir fimm leiki. 

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - SR

SA hefur tvívegis unnið SR í A-hluta deildarinnar í vetur, 9-4 á fyrstu ofurhelginni í Egilshöll í nóvember og 5-4 á Akureyri, en SR vann einu viðureign liðanna í Laugardalnum, 6-3.

- - -

KA2 leikur sinn annan leik í Kjarnafæðimótinu á laugardag, en liðið vann Þór 2-1 í fyrsta leik. KFA mætir til Akureyrar og spilar sinn fyrsta leik í mótinu.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, A-deild, B-riðill karla
    Boginn kl. 17
    KA2 - KFA

- - -

Völsungur og Þór2 hefja leik í Kjarnafæðimótinu á laugardag.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, A-deild, A-riðill karla
    Boginn kl. 19
    Völsungur - Þór2

SUNNUDAGUR 14. DESEMBER - fótbolti, blak, handbolti, körfubolti

Áfram er leikið í Kjarnafæðimótinu í knattspyrnu þegar fjórða lið Þórs tekur á móti Tindastóli.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, B-deild, A-riðill karla
    Boginn kl. 13
    Þór4  - Tindastóll

- - -

Seinni toppslagur Unbroken-deildar kvenna í blaki er á dagskránni á sunnudag. Kópavogsliðið kemur norður og mætir KA bæði á laugardag og sunnudag. 

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 14
    KA - HK

- - -

Karlalið Þórs í handboltanum á útileik á miðvikudag og síðan strax heimaleik á laugardag þegar Eyjamenn koma norður og mæta heimamönnum í Höllinni með Eyjamanninn Kára Kristján innanborðs.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 15
    Þór - ÍBV

ÍBV er í 6. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 13 umferðir, þegar þetta er skrifað á mánudegi. Þegar kemur að 15. umferðinni um og eftir næstu helgi getur staðan hafa breyst eitthvað því liðin eiga öll leiki um miðja vikuna. Eyjamenn unnu fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Eyjum í lok september, 30-24.

- - -

Annar leikur í kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu er á dagskrá á sunnudag þegar lið 2 frá Þór/KA spilar sinn fyrsta leik og tekur á móti Héraðsbúum og Austifirðingum í FHL.

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, kvennadeild
    Boginn kl. 15
    Þór/KA2 - FHL

- - -

Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur siglt nokkuð auðveldlega í gegnum fyrstu átta leiki sína í 1. deildinni það sem af er tímabili, unnið alla leikina og flesta þeirra með miklum mun. Á sunnudag er hins vegar komið að öllu erfiðara en um leið spennandi verkefni því Þórsliðið sækir Sauðkrækinga heim í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Skemmst er að minnast þess að Þórsliðið fór í undanúrslit í keppninni síðast og úrslitaleik 2024. 

  • VÍS-bikar kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahúsið á Sauðárkróki kl. 16:30
    Tindastóll - Þór

Lið Tindastóls spilar í Bónusdeildinni og er þar í 8. sætinu eftir tíu umferðir, hefur unnið þrjá leiki.

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð í vikubyrjun hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.