Fara í efni
Mannlíf

„Þetta gekk alveg ljómandi vel“

Birkir Blær Óðinsson. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Birkir Blær Óðinsson komst áfram í sænsku Idol söngkeppninni í gærkvöldi, þegar hann söng í þriðja skipti fyrir dómara; umferðin í gær kallast síðari lokaprufa. Birkir flutti þá lag Chris Stapleton, Tennessy Whiskey, við undirleik hljómsveitar.

„Þetta gekk alveg ljómandi vel,“ segir Birkir Blær við Akureyri.net. Það sem sýnt var í gær var tekið upp fyrir nokkru. Áður hafði hann tvívegis sungið fyrir dómara. Fyrst í áheyrnarprufum, þar sem hann söng Who‘s loving you, sem Jackson 5 sungu um árið, og síðan It‘s a Man‘s Mans‘ World, sem James Brown gerði vinsælt fyrir margt löngu.

„Dómararnir sögðu ekki mikið í þetta skipti og mér skilst að það sé gott! Þeir sögðu eiginlega bara að ekkert væri hægt að setja út á mig. Ég held þau reyni viljandi að gera mann dálítið stressaðan til að sjá hvernig maður höndlar þetta.“

Vegna Covid voru fyrstu áheyrnarprufurnar ekki með hefðbundnum hætti og því ekki sýndar. „Það var hringt í mig á Facetime, ég söng í gegnum tölvuna og dómarar völdu þá sem komust áfram. Það voru ekki dómararnir sem eru í aðalkeppninni, ég söng í fyrsta skipti fyrir þá núna.“

Birkir, sem býr í Gautaborg, þar sem kærasta hans hóf nám síðastliðið haust, heldur til Stokkhólms á föstudaginn þar sem næsta umferð verður tekin upp og úr því fæst skorið hverjir komast í beinu útsendingarnar. „Ef ég kemst áfram þá fer ég aftur til Stokkhólms 19. september og verð þar þangað til ég dett út. Ef ég kemst alla leið kem ég ekki heim aftur fyrr en í desember!“

Birkir Blær segir að það hafi verið vegna þrýstings frá stjúpsystur sinni, sem búsett er í Svíþjóð, sem hann ákvað að sækja um að taka þátt í keppninni. „Ég gat ekki annað en hlusta á hana,“ segir hann – og sér að sjálfsögðu ekki eftir því. Gangi Birki Blæ sem allra best!

Í GÆR Birkir Blær dásamaður af dómara í sænska Idol