Fara í efni
Mannlíf

 „Tæknin sem þú býrð yfir er stórkostleg!“

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Birkir Blær Óðinsson komst áfram í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í gærkvöldi, eins og Akureyri.net greindi frá.

Dómararnir fjórir jusu Akureyringinn lofi sem fyrr og þótti hann standa sig ótrúlega vel, þrátt fyrir að vera með ansi slæma hálsbólgu. Fyrir keppnina var hann nánast raddlaus. Birkir flutti lagið Húsavík (My Home Town) úr húsvísku Hollywood myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, 

„Birkir, ég er á þeirri skoðun að þú sért besti söngvarinn í keppninni í ár – að þú getir sungið svona þrátt fyrir að vera með hálsbólgu er stórkostlegt,“ sagði einn dómaranna. „Þetta var stórbrotið með myndum af [íslenskri] náttúru á bak við þig; tónlistin sem þú hefur í þér og tæknin sem þú býrð yfir er stórkostleg,“ sagði annar.

„Vinir mínir hafa spurt mig út í Idol keppnina í ár,“ sagði sá þriðji. „Ég hef sagt við þá: við erum búin að finna Íslending, sem er sennilega sá besti sem við höfum fundið. Hann hefur sungið nokkrum sinnum, við höfum alltaf verið að bíða og sjá, og í kvöld gerðist það – það var þetta sem við vorum að bíða eftir!“

„Þegar ég heyrði hvaða lag Birkir ætlaði að flytja hafði ég ákveðnar efasemdir, en hugsaði samt með mér að hann hlyti að geta tekið það. Þegar ég frétti svo að hann væri með hálsbólgu leist mér ekki á blikuna,“ sagði fjórði dómarinn, en bætti við: „Þetta var stórkostlegt!"

Hér má sjá og heyra Birki Blæ syngja í gærkvöldi.