Fara í efni
Mannlíf

Skrifstofa Samherja fyrst á eldhúsborðinu – starfsmenn 40 árum síðar eru um 800

Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmssondrógu íslenska fánann að húni á Guðsteini á heimsiglingunni

Nákvæmlega 40 ár eru í dag liðin frá því togarinn Guðsteinn GK 140 sigldi inn Eyjafjörð. Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson höfðu þá keypt nær allt hlutafé í Samherja hf. í Grindavík, sem hafði gert Guðstein út og fluttu þeir félagið til Akureyrar.

„Hófst þar með saga félags, sem hefur frá þeim degi dafnað og vaxið í að vera eitt stærsta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, með rekstur í útgerð, landvinnslu, fiskeldi og sölu sjávarafurða,“ segir á vef Samherja í dag, þar sem saga fyrirtækisins rifjuð upp í máli og myndum.

Guðsteini var breytt í frystitogara og bar nafnið Akureyrin EA 10. Smellið hér til að sjá fróðlega og skemmtileg grein um sögu Akureyrinnar ásamt fjölda mynda.

Upphafið! Guðsteinn GK 140, síðar Akureyrin EA 10 siglir inn Eyjafjörð 1. maí 1983.

Skrifstofan við eldhúsborðið

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segist muna vel eftir deginum þegar Guðsteinn sigldi inn Eyjafjörðinn fyrir sléttum fjörutíu árum síðan. „Við vorum sannfærðir um að hægt væri að breyta Guðsteini í gott frystiskip, sem kom reyndar á daginn. Í byrjun komst skrifstofan fyrir á eldhúsborði en í dag eru starfsmenn um átta hundruð og umfangið telst vera umtalsvert á íslenskan mælikvarða. Eins og gefur að skilja hefur gengið á ýmsu í rekstrinum, rétt eins og hjá öllum atvinnugreinum og þjóðinni allri. Við höfum verið óhrædd við að feta nýjar slóðir, bæði hvað varðar útgerð og vinnslu, alltaf með í huga að bæta gæði afurðanna jafnt á við öryggi og aðbúnað starfsmanna. Þróunin hefur verið mjög mikil til dæmis í tækni og ég er stoltur af hvernig til hefur tekist,“ segir forstjórinn á vef fyrirtækisins.

Áhöfnin á Akureyrinni fagnar mettúr sumarið 1985. Sitjandi fremst: Páll Valdimarsson, Konráð Alfreðsson, Brynjar Jacobsen, Brynjólfur Jónsson, Baldvin Loftsson, Hrafn Ingvason og Arngrímur Brynjólfsson. Fyrir miðju: Hákon Þröstur Guðmundsson, Stefán Ingvason, Erling Ingvason, Kristján Frðriksson, Friðrik Árnason, Heiðar Sigurbjörnsson, Sveinbjörn Hjörleifsson, Jón Stefánsson, Jón Ívar Halldórsson og Heimir Tómasson. Aftast: Hulda Árnadóttir, Oddur Árnason, Hreinn Pálmason, Inga Jóna Steingrímsdóttir, Steingrímur Einarsson, Jón Óskarsson, Birgir Örn Arnarson, Hörður Már Guðmundsson og Rúnar Jóhannsson.

„Þessi tímamót eru í mínum huga ljúfsár, Samherji hefur misst menn og það setur mark sitt á þessa fjörutíu ára vegferð. Sjómennska hefur verið og er enn hættulegt starf, þeir sem sækja sjóinn og ástvinir þeirra leggja mikið á sig.

Sem betur fer hafa orðið stórstígar framfarir hvað varðar bættan aðbúnað sjómanna, við leggjum mikla áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmál og við viljum vera leiðandi í þeim efnum, bæði til sjós og lands.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með hæfileikaríku fólki hvaðanæva að - með ólíkan bakgrunn og ólíka sögu - við að gera hlutina betur í dag en í gær, þar sem liðsheildin er í fyrirrúmi. Sumir hlutir hafa ekki gengið upp, aðrir hafa borið ávöxt og verið til gagns.

Það eru ýmis verkefni í gangi hjá okkur svo sem uppbygging í fiskeldi á landi og kynslóðaskiptin sem orðið hafa í félaginu gefa manni trú á að framtíðin sé björt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Akureyrin EA 10 nýskveruð og máluð á reynslusiglingu.

Leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja tekur í sama streng og Þorsteinn Már, 1. maí 1983 er honum í fersku minni.

„Veðrið var gott og fjöldi manns fylgdist með skipinu sigla inn fjörðinn. Eins og efnahagsástandið var á þessum tíma er vel skiljanlegt að margir hafi eindregið varað okkur við því að fara út í útgerð, enda rekstur greinarinnar svo að segja í molum. En við trúðum á sjálfa okkur og margir voru tilbúnir til að leggjast á árarnar með okkur. Sjávarútvegurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum áratugum, rétt eins og aðrar atvinnugreinar.

Togarafloti Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið í stöðugri þróun og er í dag öflugur og vel búinn á allan hátt og sömu sögu er að segja um vinnsluhúsin. Hátæknin í vinnsluhúsunum á Akureyri og Dalvík er í raun afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu búnaðinn. Í mörgum tilvikum er um að ræða sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi, sem við Íslendingar getum verið stoltir af. Þetta á einnig við um skipin sem félagið hefur látið smíða á undanförnum árum.

Ég er bæði bjartsýnn og þakklátur á þessum tímamótum og hlakka til að takast á við verkefni framtíðarinnar með því góða fólki sem starfar hjá félaginu.“

Smellið hér til að sjá meira á vef Samherja.