Fara í efni
Mannlíf

Þorvaldur tekur við af Kristjáni hjá Samherja

Þorvaldur Þóroddsson, nýr framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Mynd: Samherji/Sigurður Bogi Sævarsson

Þorvaldur Þóroddsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Hann er aðeins annar maðurinn sem gegnir starfinu í sögu fyrirtækisins; Kristján Vilhelmsson, einn stofnenda Samherja, stýrði útgerðarsviði fyrirtækisins frá stofnun árið 1983 þar til fyrir fáeinum dögum.

Greint er frá ráðningu Þorvaldar á vef Samherja í dag. 

Þorvaldur er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur undanfarin ár séð um hráefnisstýringu hjá landvinnslum Samherja. Þar áður var hann gæða- og þróunarstjóri félagsins. Þorvaldur hefur starfað hjá Samherja frá árinu 2005.

„Ég er þakklátur yfirstjórn félagsins fyrir traustið. Skip Samherja eru afar vel búin og vel mönnuð. Í landi starfar sömuleiðis traustur hópur sem hefur víðtæka reynslu af útgerð, þannig að grunnurinn er sannarlega góður,“ segir Þorvaldur á vef fyrirtækisins í dag.

„Sjálfur þekki ég ágætlega til innviða Samherja þar sem metnaður að gera betur og samvinna hefur alltaf verið leiðarstefið. Spor Kristjáns Vilhelmssonar verða vissulega vandfyllt en eftir okkar góða samstarf í gegn um árin veit ég að dyr hans munu alltaf standa mér opnar, rétt eins og hjá öllu öðru starfsfólki félagsins,“ segir Þorvaldur Þóroddsson.