Fara í efni
Mannlíf

Skólahald aftur í Grímsey frá áramótum?

Framkvæmdum við kirkjubygginguna miðar áfram, meðal annars með sjálfboðavinnu íbúanna. Ljósmynd: Akureyri.is - Sigurður Henningsson.

Grímseyingar eru bjartsýnir eins og alltaf og ekki bara neikvæðar fréttir af bilaðri ferju eða fjármögnunarvanda kirkjubyggingar eins og stundum mætti ætla af því sem skrifað er hér og í öðrum fjölmiðlum. Í pistli á vef Akureyrarbæjar fer María Helena Tryggvadóttir yfir það sem er og hefur verið í gangi hjá Grímseyingum undanfarið. Þar er að finna marga jákvæða punkta.

Þó Grímseyingar ráði ekki yfir veðrinu er þó einn af jákvæðu punktunum sá að veðrið hefur verið einstaklega gott norður við heimskautsbaug undanfarnar vikur, sól og stilla dag eftir dag, flesta daga.

Mikið hefur verið um framkvæmdir og hafa íbúar meðal annars unnið í sjálfboðavinnu við frágang á þaki nýju kirkjunnar undir handleiðslu byggingarstjórans Kristjáns E. Hjartarsonar. Unnið hefur verið að frágangi utan dyra, jarðvegsvinnu og hellulögn við kirkjuna og skrúðhúsið, auk þess sem skrúðhúsið hefur verið innréttað, en það mun meðal annars hýsa almenningssalerni. Vonir standa til að hægt verði að klára þakið í vetur og jafnvel byrja á framkvæmdum innanhúss í kirkjunni sjálfri. 

Eins og áður hefur komið fram í fréttum er kirkjubyggingin að mestu fjármögnuð með söfnunarfé og er enn hægt að leggja Grímseyingum lið við þetta verkefni. Upplýsingar er að finna á vef verkefnisins.

Fleira er talið upp í pistli Maríu Helenu. Til dæmis hófust framkvæmdir við nýjan stíg frá þorpinu norður með vesturströnd eyjunnar fyrir skemmstu. Verkefnið er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og mun bæta öryggi, upplifun og útivistarmöguleika fyrir íbúa og gesti eyjarinnar. Þá standa yfir endurbætur á raflögnum við höfnina. Sæfari siglir aftur eftir að hafa verið í slipp, en veðrið fyrr í vikunni hafði einnig áhrif á siglingar. 

Íbúum Grímseyjar hefur fjölgað ofurlítið að því er fram kemur í pistlinum og er nú búið í tveimur húsum sem hafa hingað til verið nýtt sem orlofshús. Þar eru brottfluttir Grímseyingar sem voru búsettir í Grindavík, en hafa snúið aftur í heimahagana, að minnsta kosti á meðan á jarðhræringum stendur fyrir sunnan. 

Grímseyingar gera sér einnig vonir um fjölgun um áramótin því fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt fyrir sitt leyti að endurvekja skólahald í Grímsey á vorönn 2024, að því gefnu að þrír nemendur hefji þar skólagöngu.