Fara í efni
Mannlíf

Skjáveggjastýring sem bylting í brúnni

Hjörtur Valsson skipstjóri í brúnni á Margréti EA. Mynd af vef Samherja.

Brúin í uppsjávarskipi Samherja, Margréti EA 710 hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Svokölluð skjáveggjastýring hefur verið innleidd, sem gerir það að verkum að skipstjórinn getur stjórnað og fylgst með hvaða tæki sem er á stórum sjónvarpsskjáum.

Greint er frá þessu á vef Samherja í morgun. Hjörtur Valsson skipstjóri segir að ótrúlega vel hafi gengið að setja upp skjáveggjastýringuna.

Ein mús í stað tíu

„Með þessu kerfi er hægt að draga yfir á skjáina öll þau tæki sem verið er að vinna með hverju sinni, hvort sem við erum á veiðum eða siglingu. Í gamla kerfinu vorum við með um tíu tölvumýs en núna er öllu stjórnað með einni mús, sem er mikill kostur. Myndirnar eru auk þess mun skýrari en á gömlu tækjunum, enda voru þau komin nokkuð til ára sinna. Allar skipanir í kerfinu eru því mun auðveldari og svo munar miklu að geta sett upp mismunandi sviðsmyndir og haft alla þætti svo að segja á sama staðnum. Allt þetta gerir vinnuaðstöðuna þægilegri og öruggari,“ segir Hjörtur.

Margrét EA 710 er fimmtán ára gamalt skip og segir Hjörtur að eðli málsins samkvæmt hafi verið kominn tími á uppfærslu, þótt eldri búnaðurinn hafi vissulega þjónað sínum tilgangi með miklum ágætum.

„Jú jú , við getum alveg hiklaust talað um byltingu í þessum efnum og uppsetningin gekk ótrúlega vel. Í byrjun desember leit út fyrir að skipið yrði í höfn í einhverjar vikur og þá var ákveðið að vaða í þetta verkefni og er skemmst frá því að segja að veggurinn var kominn upp rúmum þremur vikum síðar, sem er í raun ótrúlegt. Allir brettu upp ermarnar og létu verkin tala, að sjómanna sið. Við höfum farið í tvær veiðiferðir eftir að þetta nýja kerfi var sett upp og gaman að segja frá því að allt saman virkaði svo að segja hundrað prósent í fyrsta túrnum, það var í raun sáralítið sem þurfti að lagfæra. Þetta sýnir og sannar hversu vel við búum hérna á Akureyri varðandi slíka þjónustu.“

Ánægður með útkomuna

Kristinn Daníelsson hjá Samherja hafði yfirumsjón með verkefninu og leitað var til fyrirtækjanna ELAK, M-tech, N.Hansen og Trésmiðjunnar Ýmis. Öll eru þessi fyrirtæki á Akureyri og hafa tekið að sér margvísleg verkefni fyrir Samherja og tengd félög í áranna rás, segir á vef fyrirtækisins.

„Það er frekar flókið að setja upp svona kerfi og þá er auðvitað lykilatriði að hafa samhentan mannskap sem veit nákvæmlega hvað snýr upp og niður í þessum fræðum. Skjáveggjastýringin í Margréti EA er svipuð þeirri sem er í Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, sem hefur reynst mjög vel og svona kerfi eru líklega í flestum nýrri skipum flotans. Ég er afskaplega ánægður útkomuna og hlakka til næstu veiðiferðar,“ segir Hjörtur Valsson skipstjóri á Margréti EA 710.“

Vefur Samherja