Fara í efni
Mannlíf

Skemmtileg upphitun fyrir sjómannadaginn

Ibrahim, Jana dóttir hans og sonurinn Abdulrahman, sem er fæddur á Akureyri og verður sex ára í desember. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sjómannadagsþema er á Iðnaðarsafninu þessa dagana í tilefni sjómannadagsins sem er á morgun, sunnudag. Þar var opið hús í gær og fjöldi fólks lagði leið sína á staðinn. Á safninu eru nú til sýnis skipa- og bátalíkön og ýmislegt annað sem tengist sjómennsku, og verður áfram næstu daga. Iðnaðarsafnið er opið alla daga vikunnar frá klukkan 10.00 til 17.00

Þá eru Þorsteinn Pétursson og hans menn á Húna II á ferðinni um helgina. Þeir buðu fólki í klukkustundar siglingu síðdegis í gær þar sem Árni Björn Árnason jós úr viskubrunni sínum um skipasmíðar á Akureyri en hann hefur árum saman safnað upplýsingum um báta og bátasmiði hér á landi. Árni  Björn heldur úti vefsíðu með ógrynni upplýsinga og ástæða er til að hvetja áhugasama til að skoða síðuna; smellið hér til að fara þangað.

Hópur fólks sigldi með Húna II í gær, mest Sýrlendingar sem komu til Akureyrar sem flóttamenn fyrir sjö árum en hafa fest hér rætur. Jana er ein þeirra. „Ég hef farið nokkrum sinnum í skólaferðir með Húna,“ sagði hún við Akureyri.net í gær og nefndi að faðir hennar, Ibrahim, væri nú um borð í annað skipti. Sýrlenska hópnum hefði verið boðið í siglingu fljótlega eftir komuna til landsins á sínum tíma.

Jana útskrifaðist úr Giljaskóla á dögunum. „Ég ætla í MA,“ segir hún um næstu skref, „en ég er ekki búin að ákveða hvort ég fer á náttúrufræðibraut eða heilbrigðisbraut.“ Hún naut siglingarinnar í gær eins og aðrir. Rétt er að benda á að á morgun býðst fólki að sigla með Húna II um Pollinn, hann fer frá flotbryggjunni við Hof  klukkan 13.00, 14.00 og 15.00. 

Sigfús Ólafur Helgason, safnvörður á Iðnaðarsafninu, Bjarni Bjarnason skipstjóri og Þorsteinn E. Arnórsson, safnstjóri. Líka Bjarna af Súlunni EA 300 á milli hans og Sigfúsar.

Líkan af Kaldbak EA 1, síðutogara Útgerðarfélags Akureyringa, á Iðnaðarsafninu. Líkanið smíðaði Aðalgeir Guðmundsson vélstjóri, sem var á Kaldbak frá 1948 og síðan á Harðbak EA 3 frá 1950 allt til 1971. Smíðin hófst í Harðbak og stóð yfir með hléum allt verkinu var lokið fyrir 1970. Ári síðar gaf hann Sæmundi Auðunssyni fyrsta skipstjóra á Kaldbak líkanið.

Þorsteinn Pétursson og Árni Björn Árnason um borð í Húna II í gær.

Ibrahim, May, Yousseff, Muhammad og Muhammad, lengst til hægri í rauða gallanum. Í barnabílstólnum er Lamis, sjö mánaða dóttir May og Muhammad. Hún fæddist mánuði eftir að fjölskyldan kom til Akureyrar frá Líbanon.

Naima skemmti sér vel um borð í Húna II í gær.

Mohamad og Yousseff.

Árni Björn Árnason jós úr viskubrunni sínum um skipasmíðar á Akureyri um borð í Húna II á siglingunni í gær.

Ibrahim, Naima, Abdulrahman og Rimal.

Ahmed, Khalid, Ibrahim, Yousseff og Anas.