Fara í efni
Mannlíf

Afhjúpuðu líkan af sextugum Húna II

Ingibjörg Tryggvadóttir og Þorsteinn Pétursson afhjúpuðu líkanið af Húna II við Iðnaðarsafnið í gær. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Glæsilegt líkan af eikarbátnum Húna II var afhjúpað í glampandi sól utan við Iðnaðarsafnið á Akureyri í gær. Skipið er 60 ára og 25 ára afmæli safnsins var fagnað í gær; þjóðhátíðardaginn, 17. júní, verða 25 ár síðan Jón heitinn Arnþórsson opnnaði safnið í fyrsta sinn.

„Iðnaðarsafnið á Akureyri á skip, já alvöru skip, Húna ll sem nú um þessar mundir fagnar 60 ára afmæli, en það var þann 22. júni árið 1963 sem Húni rann af sleðanum út í Eyjafjörðinn, af Oddeyrinni frá skipasmíðastöð KEA og 11. júli lagði hann af stað út Eyjafjörð í fyrsta sinn til heimahafnar, Höfðakaupstaðar fullbúin til veiða. Skipið var teiknað og hannað af yfirskipasmiðnum Tryggva Gunnarssyni,“ sagði Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins við athöfnina í gær. „Alla tíð var Húni happasælt skip sem fiskaði vel og borgaði sig margfalt eins og sagt er.“

Upprunalegt útlit

„Síðastliðið haust þegar við vorum að renna yfir sögu bátsins og veltum því fyrir okkur hvernig best væri að minnast áranna 60 og heiðra þar minningu skipasmiðanna sem smíðuðu bátinn, því jú við erum Iðnaðarsafn, kom það upp í tveggja manna tali að best færi á því, að úr því að Snæfellið væri 80 ára og til væri líkan á Iðnaðarsafninu af skipinu, skyldum við láta smíða líkan af Húna í tilefni tímamótanna,“ sagði Sigfús Ólafur 

Sigfús Ólafur Helgason, safnstjóri Iðnaðarsafnsins, og Jóhannes Kárason, til vinstri, sem tók við þakklætisvotti frá safninu fyrir hönd Hollvina Húna, „með kærum kveðjum fyrir alla alúðina og elskuna sem Hollvinir hafa sýnt skipinu alla tíð. Megi þessi litli skjöldur hanga upp á vegg um borð í bátnum,“ sagði safnstjórinn. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

„Við fengum Elvar Antonsson á Dalvík til að smíða líkanið fyrir okkur og það er eins og báturinn leit út þegar hann var afhentur eigendunum Birni Pálssyni á Löngumýri og Hákoni Magnússyni og nú erum við komnir með það hér undir glerinu. Vil ég þakka Elvari Þór fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf.“

Söfnun var hrundið af stað og til að gera langa sögu stutta, sagði safnstjórinn, tókst á „undra skömmum tíma að safna fyrir smíði líkans af bátnum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka einstaklingum, fyrirtækjum sem og félögum sem studdu verkefnið kærlega fyrir.“

Ótrúleg bjartsýni

Sigfús Ólafur kvaðst ekki geta látið hjá líða að nefna hjónin Þorvald Skaftason og Ernu Sigurbjörnsdóttur, sem í raun hafi gert það að verkum að saga Húna er ekki gleymd. „Með ótrúlegri bjartsýni og í raun hálfgerðu brjálæði keyptu þau skipið þegar búið var að afskrá það og í raun dæma ónýtt; skipsins beið það eitt að verða eldiviður áramótabrennu á Austurlandi,“ sagði safnstjórinn.

„Þau Valdi og Erna höfðu háleitar hugmyndir um að það mætti halda áfram að varðveita skipið og með dugnaði og atorku náðu þau að koma skipinu í það stand að hægt var að nota það í hvalaskoðun og sérferðir um nokkurra ára skeið.

En björgunin tók á, og gekk ansi nærri þeim hjónunum, og árið 2005 er það svo eftir viðræður á bak við tjöldin eins og sagt er, að Húni kemur til Akureyrar til sinnar fyrstu heimahafnar ef svo má segja, og þá hófst 3. kafli í sögu bátsins sem í raun er lygasögu líkastur og stendur enn.“

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Menntastofnun

Húni II er í eigu Iðnaðarsafnsins sem fyrr segir en Hollvinir Húna sér um skipið dags daglega; „félagsskapur sem tók ástfóstri við skipið og sú ást ríkir enn. Það er tæplega hægt að koma í orð alúðinni sem hollvinirnir hafa sýnt bátnum og í dag á þessum merku tímamótum er báturinn svo fallegur og til mikils sóma,“ sagði Sigfús Ólafur.

„Báturinn er í dag eiginlega mest það sem kalla má menntastofnun, því aðalverkefni Húna nú í um það bil 15. ár hefur verið að sigla með grunnskólakrakka og kynna fyrir þeim ýmislegt sjávar- og fiskitengt. Frá öngli til maga er verkefnið nefnt og er það unnið í samstarfi við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, með stuðningi Samherja og Akureyrarbæjar.“

Sigfús greindi síðan frá því, um leið og hann flutti viðstöddum kærar kveðjur frá Þorvaldi Skaftasyni og Ernu Sigurbjörnsdóttur sem áttu ekki heimangengt, að viðstaddur væri maður úr fyrstu áhöfn Húna, Birgir Þórbjörnsson.

Það voru síðan Þorsteinn Pétursson, „einn ötulasti hollvinur Húna sem til er, og einn af þeim sem vann við smíði skipsins á sínum tíma,“ eins og Sigfús orðaði það, og Ingibjörg Tryggvadóttir, sem afhjúpuðu líkanið. Ingibjörg er dóttir Tryggva heitins Gunnarssonar yfirskipasmiðs og þess er teiknaði Húna. Tryggvi lést árið 2009.