Sex útilokunardómar í fyrsta tapi SA
SA Víkingar töpuðu sínum fyrsta leik í A-hluta Toppdeildar karla í íshokkí í gærkvöld þegar Akureyringar sóttu Fjölnismenn heim í Egilshöllina í Reykjavík. Eftir rólega byrjun sauð upp úr í þriðju lotunni, sex leikmenn fengu útilokunardóm. SA Víkingar höfðu þá 3-1 forystu, en Fjölnismenn skoruðu þrjú mörk á síðasta stundarfjóðrungunum og unnu að lokum 4-3. Þessi sömu lið mættust í Skautahöllinni á Akureyri síðastliðinn laugardag og höfðu SA Víkingar þá betur, 4-3, eftir að hafa lent þrisvar undir í leiknum.
Fyrsta lotan var með rólegra móti, ekkert skorað og aðeins ein tveggja mínútna refsing eftir árekstur leikmanns SA við markvörð Fjölnis. Leikar áttu þó eftir að æstast þegar leið á kvöldið.
Fjölnir skorar, SA svarar með þremur
Eins og í leiknum á laugardag voru það Fjölnismenn sem skoruðu fyrsta markið. Það kom þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af annarri lotunni, eftir að þeir unnu pökkinn í eigin varnarsvæði og Róbert Pálsson átti langa sendingu fram á Frey Waage sem allt í einu var einn á móti Jakobi í marki SA og kláraði vel. Bjarki Jóhannsson jafnaði leikinn tæpum þremur mínútum síðar eftir klaufagang eða misskilning hjá varnarmönnum Fjölnis sem varð til þess að Bjarki fékk pökkinn óvænt fyrir framan mark Fjölnis og skoraði. Hans fyrsta mark í meistaraflokki.

Bjarki Jóhannsson til vinstri með pökk að launum eftir að hafa skorað sitt fyrsta meistaraflokksmark. Mikael Eiríksson til hægri spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik og var einn þeirra þriggja sem sátu saklausir fimm mínútna dóma fyrir þá sem reknir voru út úr leiknum. Myndin er af Facebook-síðu íshokkídeildar SA.
Bjarmi Kristjánsson náði svo forystunni fyrir SA þegar sjö mínútur voru eftir af annarri lotunni, eftir fallega sókn og einfalt en flott samspil þeirra rauðu. Þeir voru þá einum fleiri eftir að einn Fjölnismaðurinn var sendur í refsiboxið og nýttu yfirtöluna vel, létu pökkinn ganga hratt á milli og sköpuðu þannig færi og skoruðu. Þriðja markið kom svo aðeins 43 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju. Heiðar Gauti Jóhannsson vann þá pökkinn í eigin varnarsvæði og átti hnitmiðaða sendingu fram á Matthías Stefánsson sem var kominn einn á móti markverði Fjölnis og lék skemmtilega á hann og skoraði.
Sex fengu útilokunardóm
Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum fór allt í bál og brand, slegist á þremur stöðum á svellinu samtímis, dómarar stöðvuðu ein slagsmál, en þá voru menn enn að takast á annars staðar á svellinu. Lætin hófust eftir brot Fjölnismanns á leikmanni SA og í framhaldinu sauð upp úr. Þegar upp var staðið fengu þrír úr hvoru liði útilokunardóm (game misconduct, 5+20 mínútur) og um leið þurftu einnig þrír saklausir úr hvoru liði að sitja af sér fimm mínútna refsinguna í boxinu fyrir þá sem voru reknir út úr leiknum. Það var því orðið nóg rými á varamannabekkjunum um tíma.
Rétt um mínútu eftir að leikur hófst að nýju skoraði Hektor Hrólfsson annað mark Fjölnis. Það var skammt stórra högga á milli, fyrst bókstaflega og síðan í atburðum í leiknum sjálfum, því rúmum þremur mínútum síðar jafnaði Jere Koikkalainen í 3-3, en hann hafði átt stoðsendinguna á Hektor í þriðja markinu. Ekki allt búið enn því rúmum þremur mínútum eftir jöfnunarmarkið náðu heimamenn í Fjölni forystunni þegar Hektor skoraði sitt annað mark.
Enn voru þó átta mínútur til stefnu til að ná að jafna, en þær tilraunir báru ekki árangur. SA Víkingar tóku leikhlé þegar 33 sekúndur voru eftir og reyndu hvað þeir gátu að jafna, leikurinn síðan stöðvaður þegar þrjár sekúndur voru eftir og munaði ekki miklu að þeim tækist að jafna, þeir náðu skoti á markið sem var varið og leiktíminn rann út. Fyrsta tap SA Víkinga og fyrsti sigur Fjölnis í deildinni í vetur því niðurstaðan.
- Fjölnir - SA 4-3 (0-0, 1-3, 3-0)
Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Hektor Hrólfsson 2/0, Jere Koikkalainen 1/1, Freyr Waage 1/1, Róbert Pálsson 0/1, Viktor Svavarsson 0/1.
Varin skot: Tuomad Heikkonen 20 (83,3%).
Refsimínútur: 79.
SA
Mörk/stoðsendingar: Bjarki Jóhannsson 1/0, Bjarmi Kristjánsson 1/0, Matthías Stefánsson 1/0, Robbe Delport 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1.
Varin skot: Jakob Jóhannesson 30 (90,9%).
Refsimínútur: 81.
Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og hægt að horfa á upptöku í spilaranum hér að neðan.
Hér breyttist leikurinn: