Fara í efni
Mannlíf

Fimm marka sigur SA Víkinga á SR

Bjarmi Kristjánsson skoraði tvö fyrstu mörk SA Víkinga í 9-4 sigri á SR í dag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

SA Víkingar unnu SR í gær, í fyrri leik sínum í helgarferð til höfuðborgarinnar í Toppdeild karla í íshokkí. Boðið var til þrettán marka veislu, lokatölurnar 9-4. Þrjú mörk á stuttum kafla í öðrum leikhluta eftir að jafnt var 2-2 skiptu sköpum þegar upp var staðið og létu SA Víkingar forystuna ekki af hendi, unnu að lokum öruggan sigur. 

Bjarmi Kristjánsson skoraði tvívegis fyrir SA í fyrsta leikhluta, en Kári Arnarsson jafnaði í 1-1 á milli marka Bjarma. SA Víkingar með 2-1 forystu eftir fyrsta leikhlutann. Bjarmi þarna að skora sín fyrstu meistaraflokksmörk.

SR jafnaði aftur í 2-2 snemma í öðrum leikhluta, en þá komu þrjú mörk á innan við tveimur mínútum frá SA sem gerðu gæfumuninn þegar upp var staðið því SR-ingum tókst aldrei að ógna sigrinum eftir það. Robbe Delport skoraði tvö mörk með 38 sekúndna millibili, hans fyrstu mörk í meistaraflokki, og Atli Sveinsson kom SA í 5-2 aðeins 65 sekúndum eftir seinna markið.

Markvörður SR fær brottvísun

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af öðrum leikhluta hitnaði í kolunum og misstu SR-ingar markvörð sinn, Jóhann Björgvin Ragnarsson, út úr leiknum. SA Víkingar sóttu þá að marki SR, pökkurinn laus fyrir framan markið og mikil þvaga, en SR-ingum tókst loks að koma honum frá. Þá hendir Jóhann sér á leikmann SA sem lá fyrir framan hann og hóf kýlingar og fékk að sjálfsögðu útilokunardóm að launum. Conor White kom þá í markið í hans stað. Á lokamínútu leikhlutans bætti Marek Vybostok við sjötta marki SA.

Markaveislan hélt svo áfram í þriðja leikhlutanum. Tvívegis náðu SR-ingar að minnka muninn í þrjú mörk en SA svaraði með mörkum frá Hafþóri Andra Sigrúnarsyni og Ormi Jónssyni. Heiðar Gauti Jóhannsson jók svo muninn í fimm mörk og lokatölur 9-4.

Margir leikmenn SA Víkinga komu við sögu í mörkum dagins, alls 13 sem skoruðu og/eða áttu stoðsendingu. 

  • SA - SR 9-4 (2-1, 4-1, 3-2)

SA

Mörk/stoðsendingar: Robbe Delport 2/1, Bjarni Kristjánsson 2/0, Hafþór Andri Sigrúnarson 1/2, Marek Vybostok 1/1, Atli Sveinsson 1/1, Ormur Jónsson 1/1, Hank Nagel 0/2, Andri Már Mikaelsson 0/2, Róbert Hafberg 0/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1, Uni Blöndal 0/1, Dagur Jónasson 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 1/0.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 33 (89,2%).
Refsimínútur: 22.

SR

Mörk/stoðsendingar: Alex Máni Sveinsson 2/1, Sölvi Atlason 1/2, Kári Arnarsson 1/1, Hákon Magnússon 0/2.
Varin skot: Jóhann Björgvin Ragnarsson 4 (44,4%), Conor White 32 (88,9%).
Refsimínútur: 41.

Leikskýrslan.

Staðan í deildinni.

Leikir helgarinnar eru fyrstu leikirnir í A-hluta deildarinnar eftir forkeppnina og eru hluti af svokallaðri ofurhelgi í Toppdeild karla þar sem liðin þrjú mætast öll í sömu höllinni á frá föstudegi til sunnudags. SR og Fjölnir mættust í Egilshöllinni í gær og hafði SR sigur, 6-5. SA mætir svo Fjölni í Egilshöllinni kl. 16:45 í dag, sunnudag. 

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum í spilaranum hér að neðan: