Fara í efni
Mannlíf

Samherji selur Björgvin EA – nýtt skip smíðað

Samherji hefur selt ísfisktogarann Björgvin EA 311. Kaupandi skipsins er erlend útgerð og verður það afhent í júní. Samherji lætur smíða nýtt skip í stað Björgvins. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins í dag.

Björgvin EA er elsta skipið í flota Samherja, smíðað í Noregi árið 1988 og hefur alla tíð reynst mjög vel, að því er segir vef Samherja. „Áhöfnin hefur umgengist skipið á sérstaklega vandaðan hátt og alla tíð hefur viðhald verið með ágætum.“

Einstaklega gott skip

„Við kveðjum senn einstaklega gott skip en teljum skynsamlegt á þessum tímapunkti að yngja upp í flota félagsins og láta smíða nýtt skip í stað Björgvins EA. Viðhaldskostnaður gamalla skipa eykst verulega eftir því sem árunum fjölgar en Björgvin EA er að nálgast 40 árin. Við munum leitast við að tryggja áhöfn Björgvins EA pláss á öðrum skipum félagsins,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.

„Við leggjum áherslu á nýjustu tækni og hagkvæmi á öllum stigum starfseminnar, liður í þeim efnum er að skipaflotinn sé ávallt sem best búinn. Björgvin EA þótti mjög svo athyglisvert skip á sínum tíma, svo sem skrokklagið. Við smíði nýs skips verður sem fyrr vandað til verka og ég er sannfærður um að þetta er rétt skref í þeirri stefnu okkar að vera með vel búinn skipaflota,“ segir Kristján á vef Samherja.